Laugalækjaskólasveitin á útleið 

 

 

Skáksveit Laugalækjaskóla mun nú halda í víking á laugardaginn kemur og dvelja erlendis við skákiðkun út júnímánuð.

 

Fyrst munu meðlimir sveitarinnar taka þátt í Mysliborz-mótinu, pólsku grand-prix skákmóti, sem er hluti af eins konar bikarkeppni, sem fer fram hér og þar um landið á keppnistímabilinu. Mysliborz er skemmtilegur staður í Póllandi og má m.a. skoða skemmtilega myndasíðu frá staðnum.

 

Keppendum er skipt í tvo flokka, yfir og undir 2000. Daði Ómarsson, Vilhjálmur Pálmason og Matthías Pétursson fengu að taka þátt í yfir 2000 flokknum, en þeir Einar Sigurðsson og Aron Ellert Þorsteinsson verða í þeim lægri.

 

 

Laugalækjasveitin hefur æft vel að undanförnu, undir stjórn aðalþjálfara liðsins, Torfa Leóssonar, framkvæmdastjóra Skákskóla T.R. og munu þær æfingar vonandi skila strákunum góðum árangri.

 

En í framhaldinu fer sveitin á Evrópumót grunnskólasveita, sem fram fer í Búlgaríu síðar í júnímánuði.