Laugalækjarskóli er Reykjavíkurmeistari grunnskóla 2017. Rimaskóli hlutskarpastur í stúlknaflokki.20170206_173524

Húsfyllir. Hátt í 200 manns sóttu Taflfélag Reykjavíkur heim er Reykjavíkurmót grunnskólasveita 2017 var haldið.

 

Húsfyllir var á Reykjavíkurmóti grunnskólasveita sem haldið var í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur síðastliðinn mánudag. 130 börn mættu galvösk til leiks eftir langan skóladag og settust að tafli í 28 skáksveitum. Það var með nokkrum ólíkindum að fylgjast með börnunum sitja einbeitt við skákborð í þrjár klukkustundir eftir langan skóladag, og það á kvöldmatartíma. Svöng og þreytt framleiddu börnin margar listilega vel útfærðar kóngssóknir, lögðu lævísar gildrur og fórnuðu mönnum á flestum reitum skákborðsins til þess að veita kóngi andstæðingsins banahöggið.

Það lá ljóst fyrir strax í upphafi að Reykjavíkurmeistararnir frá 2016, Laugalækjarskóli, voru mættir til leiks rammir að afli. Þrír af fjórum liðsmönnum þessarar ógnarsterku skáksveitar voru að tefla á sínu síðasta Reykjavíkurmóti grunnskóla og þeir ætluðu greinilega að kveðja með stæl. Laugalækjarskóli vann allar viðureignir sínar og hlaut 26,5 vinning í skákunum 28. Sannarlega frækin framganga þessara efnilegu pilta.

IMG_9171

Reykjavíkurmeistarar. Laugalækjarskóli vann örugglega með 26,5 vinning í 28 skákum.

 

Rimaskóli mætti í skáksalinn með hvorki fleiri né færri en sex skáksveitir. Þrjár þeirra komust á verðlaunapall. A-sveit Rimaskóla hlaut silfurverðlaun með 19,5 vinning, tveimur vinningum fyrir ofan B-sveit sína sem hreppti þriðja sætið. Í 4.-5.sæti lentu skáksveitir Hagaskóla og Háteigsskóla. Sveit Hagaskóla var leidd áfram af Ólympíufaranum Svövu Þorsteinsdóttur sem lék á alls oddi á 1.borði. Sveitin var í toppbaráttunni allt mótið en fataðist flugið í síðustu tveimur umferðunum gegn sterkum skáksveitum Laugalækjarskóla og Ölduselsskóla. Háteigsskóli sem var ekki með sitt sterkasta lið að þessu sinni sýndi þó klærnar gegn ofursveit Laugalækjarskóla og var eini skólinn sem vann skák gegn Reykjavíkurmeisturunum. Þar var að verki Adam Omarsson sem gerði sér lítið fyrir og vann allar skákir sínar í mótinu, sjö að tölu.

IMG_9160

Spennandi. Foreldrar fylgdust spenntir með börnum sínu spreyta sig á reitunum 64.

 

Hin sigursæla a-sveit Ölduselsskóla varð að gera sér 6.sætið að góðu. Sveitin er skipuð efnilegum og reynslumiklum piltum og endaði sveitin í 2.sæti mótsins í fyrra. Stríðsgæfan var þeim hins vegar ekki hliðholl að þessu sinni. Piltarnir eru annálaðir keppnismenn og munu vafalítið beisla stríðsgæfuna sér í vil fyrir næsta skólamót. Í 7.-8.sæti, í humátt á eftir Ölduselsskóla lentu B-sveit Hagaskóla og stúlknasveit Rimaskóla með 16 vinninga.

Stúlknasveit Rimaskóla skartaði Nansý Davíðsdóttur á 1.borði, líkt og í fyrra er sveitin reyndist hlutskörpust stúlknasveita. Nansý býr yfir slíkum skákstyrk að hún hefði hæglega getað leitt A-sveit skólans. Með Nansý í broddi fylkingar var sveitin í efri hluta mótsins og lauk keppni í 8.sæti með 16 vinninga. Reyndist það besta frammistaða stúlknasveita þetta árið. Næsta stúlknasveit hlaut 13,5 vinning og voru þar á ferð hinar ungu og áhugasömu stúlkur úr Háteigsskóla. Þriðja besta stúlknasveitin að þessu sinni var sveit Foldaskóla með 12 vinninga.

IMG_9168

Reykjavíkurmeistarar. Rimaskóli varð hlutskarpastur stúlknasveita með 16 vinninga.

 

Það gekk á ýmsu á þeim þremur klukkutímum sem börnin glímdu við skákborðin. Skákstjórar þurftu að leysa úr fjölbreyttum uppákomum og gat flækjustigið stundum verið mikið. Oft stóðu kóngar í skák í marga leiki án þess að keppendur tækju eftir því og mátti þá gjarnan greina angistarsvip hjá foreldrum sem biðu spenntir á kantinum. Einn keppandi var óvænt í miðri skák með tvo hvítreitabiskupa á borðinu og verður þá taflstaðan afar skrýtin, í það minnsta í huga reyndari skákmanna. Einnig er nokkuð algengt að minna reyndir keppendur drepi sína eigin menn. Þá tilraun framkvæmdi einmitt einn ungur piltur sem varð fyrir því óláni að verða mát uppi í borði. Sá dó ekki ráðalaus heldur steindrap sitt eigið peð á h2 -sigri hrósandi- og forðaði þar með kóngi sínum frá banatilræði andstæðingsins, allt þar til skákstjóri kom að borðinu og fór eldsnöggt yfir helstu leikreglur. Á einu af neðri borðunum hvarf kóngur eins keppanda af borðinu og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að slík ógn steðjaði að kóngnum að eigandanum þótti vissara að skjóta skjólshúsi yfir hann með því að geyma hann undir stól. Er þá ótalið barnið sem vissi ekki hvar það átti að vera í skáksalnum í tiltekinni umferð og reyndi ítrekað að segja skákstjóra nafn andstæðinganna. Eftir nokkur „ha?“, „hvað segirðu?“, og „segðu mér nafnið aftur“ lánaðist barninu loks að koma nafninu frá sér skýrt og skilmerkilega: „Ég á að tefla við Öldubrekkuskóla“. Er þessi orð eru rituð er ekki enn ljóst í hvaða sæti Öldubrekkuskóli endaði.

20170206_173645

Landakotsskóli. Áberandi sterk liðsheild Landakotsskóla endurspeglaðist í brosmiklum andlitum barnanna.

 

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra tæplega 130 barna sem tóku þátt í þessari árlegu veislu sem Reykjavíkurmót grunnskólanna er. Einnig færum við liðsstjórum og foreldrum þakkir fyrir komuna og fyrir að aðstoða mótshaldið með hjálparhöndum, ábendingum og prúðmennsku. Samstarf Taflfélags Reykjavíkur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við framkvæmd þessa skákmóts hefur verið afar gott og þökkum við Reykjavíkurborg heilshugar fyrir að veita börnunum þetta tækifæri til þess að njóta sín við taflborðin. Sjáumst að ári liðnu!

 

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á chess-results.