Mikil spenna í Skákþingi Reykjavíkur – Ólafur vann LenkuAð loknum fimm umferðum í Skákþingi Reykjavíkur er alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson efstur með 4,5 vinning ásamt Fide meisturunum Einari Hjalta Jenssyni og Davíð Kjartanssyni.  Einar Hjalti og Jón Viktor gerðu stutt jafntefli sín í milli en Davíð sigraði Þorvarð Fannar Ólafsson nokkuð örugglega.

Óvæntustu úrslit mótsins hingað til litu dagsins ljós í fimmtu umferðinni þegar Ólafur Gísli Jónsson knésetti stórmeistara kvenna Lenku Ptacnikovu með svörtu mönnunum.  Ólafur er í hópi þeirra átta keppenda sem koma næstir með 4 vinninga.  Af öðrum eftirtektarverðum úrslitum má nefna sigur Arnar Leós Jóhannssonar á Kjartani Maack en Örn hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og þá sérstaklega í hraðskákinni.  Þá gerði Hjálmar Sigurvaldason gott jafntefli við Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur og hinn ungi og efnilegi Jakob Alexander Petersen sigraði Friðgeir Hólm en á þeim munar meira en 300 Elo stigum.

Í sjöttu umferð sem fer fram á miðvikudagskvöld halda sterkustu keppendurnir áfram að mætast innbyrðis.  Jón Viktor hefur hvít gegn Davíð, Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson hefur hvítt gegn kollega sínum, Einari Hjalta, og þá hefur Þorvarður hvítt gegn hinum efnilega Jóni Trausta Harðarsyni í mjög athyglisverðri viðureign.  Ein af skákum umferðarinnar verður þó vafalaust orrusta tveggja efnilegustu skákmanna landsins þegar hinn tíu ára Vignir Vatnar Stefánsson mætir hinum fimmtán ára Oliver Aroni Jóhannessyni.

Að venju hefst umferðin kl. 19.30 og eru áhorfendur velkomnir en ávallt er heitt á könnunni og ljúffengar veitingar í boði.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur