Jon Olav Fivelstad efstur á síðasta þriðjudagsmóti TR 2019



Norski ferðamálafrömuðurinn, stjórnarmaðurinn (í TR) og alþjóðlegi skákdómarinn Jon Olav Fivelstad varð hlutskarpastur á síðasta Þriðjudagsmóti ársins í gær. Þrátt fyrir tap í uppgjöri hans og Helga Haukssonar í 3. umferð, náði Jon Olav efsta sætinu með sigri í síðustu umferð. Í annarri umferð bættust nefnilega við keppendur sem settu dálítið strik í reikninginn; hinir bráðefnilegu Arnar Ingi Njarðarson (22) sem sigraði á síðasta móti og Eiríkur K. Björnsson (60) sem var reyndar líka skákstjóri á mótinu. Eiríkur náði að sigra Helga í síðustu umferð í skrautlegri skák og niðurstaðan sú, að fjórir voru með 3 vinninga en Jon Olav efstur á stigum. 

Lokastöðu að öðru leyti og einstök úrslit má sjá á Chess results 

Ekki verða fleiri mót í Þriðjudagsmótaröðinni þetta árið en nóg er um að vera í húsakynnum TR yfir jólin. Hið árlega Jólahraðskákmót TR verður 27. desember (sjá https://taflfelag.is/motaaaetlun-2019-2020/) og svo verður Íslandsmótið í atskák 29. desember (sjá https://skak.is/2019/12/16/islandsmotid-i-atskak-fer-fram-29-desember/). Gleðileg jól!