Jafnréttisstefna Taflfélags Reykjavı́kurStjórn Taflfélags Reykjavíkur hefur samþykkt jafnréttisstefnu fyrir félagið. Mun félagið vera fyrsta og eina taflfélag landsins til að setja fram slíka stefnu og mun stjórnin gera sitt ítrasta til að framfylgja þeirri stefnu.

Inngangur:

Taflfélag Reykjavíkur stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Taflfélag Reykjavíkur leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, eða illt umtal er ekki liðin innan félagsins.

Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi. Taflfélag Reykjavíkur leggur áherslu á að styrkja jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi sem fram fer innan félagsins

Taflfélag Reykjavíkur er félag fyrir alla skákiðkendur, þar sem komið er fram við alla af gagnkvæmri virðingu:

Í Taflfélagi Reykjavíkur setja iðkendur á öllum getustigum sér einstaklingsbundin markmið og fylgja þeim eftir með leiðsögn og skipulögðu starfi á vegum félagsins. Með skákþjálfun byggjum við upp einstaklinga á jafnréttisgrundvelli, sem hafa traustar fyrirmyndir innan félagsins og fá hvatningu og þjálfun á jöfnum forsendum.

Allir félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Kynferðisleg áreitni og einelti er ekki liðin innan Taflfélags Reykjavíkur. Þeir sem verða fyrir kynferðislegri áreitni eða einelti, eða verða vitni að slíkri hegðun innan félagsins eða meðal félagsmanna, eiga að snúa sér til jafnréttisfulltrúa, þjálfara, eða formanns félagsins sem ber skylda til að koma málinu í réttan farveg.

Í Taflfélagi Reykjavíkur sitja allir við sama borð:

Allir iðkendur innan félagsins skulu njóta sömu eða sambærilegrar aðstöðu og aðbúnaðar við æfingar. Allir iðkendur eiga rétt á þjálfara sem hæfir getu þeirra og aldri. Nauðsynlegt er að þjálfarar beggja kynja búi yfir svipaðri hæfni og hafi möguleika á að fá hæfa aðstoðarþjálfara sé þess þörf.

Taflfélag Reykjavíkur vinnur gegn staðalímyndum skákarinnar:

Félagið vinnur markvisst gegn staðalímyndum með því að leitast við að jafna kynjahlutföll meðal skákiðkenda og gæta jafnræðis milli iðkenda. Á þetta við jafnt í starfi sem og allri umfjöllun um starfið. Þess er gætt að umfjöllun um bæði kynin sé sem jöfnust á vefsíðum félagsins og í öllu efni sem félagið lætur frá sér fara t.d. á vef og í fréttatilkynningum, og að það sýni þann fjölbreytileika iðkenda sem finna má innan félagsins.

Taflfélag Reykjavikur tryggir öruggt umhverfi fyrir alla iðkendur:

Einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni eða illt umtal eru ekki liðin innan Taflfélags Reykjavíkur, hvorki á æfingum né mótum sem félagið stendur fyrir. Skákmenn á vegum félagsins komi fram af virðingu við aðra þátttakendur á öllum mótum og virði þar þau gildi sem fram koma í jafnréttisstefnu þessari. Þess skal gætt að hugað sé að jafnréttis- og kynjasjónarmiðum við skipulag keppnisferða, svo allir þátttakendur geti sinnt taflmennsku fyrir félagið lausir við áreitni og við aðstæður sem tryggja öryggi þeirra og vellíðan.

Taflfélag Reykjavíkur gætir jafnræðis í verðlaunum og fjárveitingum:

Verðlaun til beggja kynja eru sambærileg. Taflfélag Reykjavíkur upplýsir kostunaraðila og aðra samstarfsaðila um þá stefnu félagsins að jafnræðis skuli gætt milli kynja í verðlaunum. Samræmi sé í fjárog/eða styrkveitingum innan félagsins eftir kynjum. Málefnaleg rök skulu vera fyrir frávikum.

Taflfélag Reykjavíkur leggur áherslu á jafnrétti í launum og hlunnindum iðkenda og þjálfara:

Allir sem starfa innan félagsins skulu njóta sömu launa og/eða hlunninda fyrir sömu eða sambærileg störf. Þjálfarar félagsins hafa sömu tækifæri, óháð kyni, til að afla sér þekkingar sem nýtist í starfinu.

Innan Taflfélags Reykjavíkur er jafnræðis gætt í öllum störfum:

Við skipan í nefndir á vegum félagsins er þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og hlutfall annars kynsins ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þess er gætt að bæði konur og karlar komi fram fyrir hönd félagsins á opinberum vettvangi.

Innan Taflfélags Reykjavíkur skal starfa jafnréttisfulltrúi sem er skipaður til eins árs í senn. Jafnréttisfulltrúi hefur það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála í félaginu og ber ábyrgð á að unnið sé eftir jafnréttisstefnu félagsins.

Samþykkt á stjórnarfundi 22.11.2021