Mikill fjöldi íslenskra skákmanna situr nú að tafli í hinni fornu höfuðborg Mörlandans, Babýlon við Eyrarsund, eins og skáldið Jón Thoroddsen nefndi þá merku borg forðum. Þar í borg fer nú fram hið árlega Politiken Cup, sem er sterkara nú en oft áður, og þar að auki tekur Lenka Ptacnikova þátt í Norðurlandamóti kvenna, en þar á hún titil að verja.
Politiken Cup er hluti af Copenhagen Chess Festival, en fer reyndar fram, eins og síðast, utan við sjálfa höfuðborgina, að þessu sinni í Helsingjaeyri.
Samkvæmt heimasíðu mótsins og Skák eru á þriðja tug íslenskra skákmanna þátttakendur í Politiken Cup, þeirra á meðal T.R.-ingarnir Þröstur Þórhallsson stórmeistari (2461), Guðmundur Kjartansson (2306), Sverrir Norðfjörð (2039) og Aron Ingi Óskarsson (1871). Af þessum sigruðu Þröstur, Guðmundur og Sverrir í fyrstu umferð, en Aron Ingi tapaði fyrir stigahærri keppenda.
Einnig ber að vekja athygli á góðum árangri Sigríðar Bjargar Helgadóttur, dóttur formanns Fjölnis, og Svanbergs Más Pálssonar,sonar formanns Taflfélags Garðabæjar, sbr. frétt á Skáksíðunni.