HTR #6: Hjörvar Steinn trónir á toppnum



Í dag fór fram 6.umferð í Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur og gekk á ýmsu á mörgum borðum. Stórmeistarinn lét til sín taka á efsta borði í uppgjöri stigahæstu manna mótsins og unga kynslóðin minnti á sig svo um munaði.

Skákheimur beið í ofvæni eftir uppgjöri stigahæstu manna mótsins og þeir gestir sem lögðu leið sína í Faxafenið urðu ekki fyrir vonbrigðum með viðureignina. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2567) stýrði hvítu mönnunum en Einar Hjalti Jensson (2362) varðist með þeim svörtu. Úr varð mjög tvísýn skák þar sem Hjörvar Steinn hafði betur að lokum eftir langa setu. Með sigrinum trónir Hjörvar Steinn á toppnum með 5 vinninga þegar þrjár umferðir eru eftir.

Jóhann H. Ragnarsson (2032) hélt áfram að ná góðum úrslitum því í dag gerði hann jafntefli við FIDE-meistarann Oliver Aron Jóhannesson (2272). Jóhann hefur því hlotið 4,5 vinning og fylgir stórmeistaranum eins og skugginn. Oliver Aron hefur einnig 4,5 vinning líkt og Magnús Pálmi Örnólfsson (2227) sem í dag gaf Páli Andrasyni (1800) engin grið.

received_10214029916091804

Efnilegur. Kristján Dagur Jónsson er á mikilli siglingu á Haustmótinu.

Þó margir skákmenn hafi náð góðum og mikilvægum úrslitum í þessari umferð þá var skákmaður dagsins, að öðrum ólöstuðum, hinn ungi og brosmildi Kristján Dagur Jónsson (1271). Hann gerði sér lítið fyrir og knésetti Hörð Aron Hauksson (1859) með svörtu en á þeim munar tæplega 600 skákstigum –geri aðrir betur! Sannarlega vel að verki staðið hjá Kristjáni Degi sem hefur mætt grimmt á skákæfingar hjá TR undanfarin misseri. Þá gerði Joshua Davíðsson (1414) einnig vel er hann vann Ingvar Egil Vignisson (1670).

Á miðvikudagskvöldið kemur verður 7.umferð tefld og þá mætast á efsta borði Oliver Aron og Hjörvar Steinn í afar mikilvægri skák fyrir toppbaráttu mótsins. Að henni lokinni hefur Hjörvar Steinn mætt öllum í toppbaráttunni nema Jóhanni. Á 2.borði etja kappi Magnús Pálmi og Jóhann þar sem án efa verður hart barist. Á 3.borði mætast skákdómararnir Einar Hjalti Jensson og Kristján Örn Elíasson í viðureign þar sem trúlega engin frávik frá skákreglum verða leyfð. Skákáhugamenn eru velkomnir í Faxafenið að fylgjast með fjörinu. Klukkur fara í gang á miðvikudag klukkan 19:30.

 

Úrslit, staða og pörun: Chess-Results

Skákir Haustmótsins: Chess-Results