Hörð toppbarátta á Haustmótinu – Björn og Vignir efstir



Haustmót Taflfélags Reykjavíkur er nú meira en hálfnað og endaspretturinn framundan. 4.umferð var tefld á miðvikudagskvöld og harðnaði toppbaráttan verulega. Aðeins einn keppandi hefur enn fullt hús, fjórir eru taplausir í B-flokki og ekkert jafntefli hefur sést í 32 skákum C-flokks.

IMG_9944

Vignir Vatnar er beittur við skákborðið um þessar mundir.

Í A-flokki hafa þrír fræknir hugarleikfimismenn tekið afgerandi forystu þegar einungis þrjár umferðir eru eftir. Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson er efstur með 3,5 vinning ásamt lærlingi sínum Vigni Vatnari Stefánssyni. Í humátt á eftir þeim með 3 vinninga er Jóhann Ingvason. Björn og Vignir mætast í 5.umferð.

Í B-flokki situr einn á toppnum hinn snjalli Alexander Oliver Mai. Alexander hefur 3,5 vinning eftir afar mikilvægan sigur í toppslag 4.umferðar gegn Svavari Viktorssyni. Svavar og Stephan Briem hafa 3 vinninga í 2-3.sæti. Svavar og Stephan mætast í 5.umferð.

Í C-flokki hafði Jón Eggert Hallsson betur gegn Arnari Milutin Heiðarssyni í uppgjöri efstu manna í 4.umferð. Þeir eru efstir og jafnir með 3 vinninga.

Í opna flokknum hefur Joshua Davíðsson tekið afgerandi forystu með 4 vinninga. Joshua er eini keppandi mótsins sem hefur fullt hús. Joshua mætir Erni Alexanderssyni í 5.umferð og mætast þar tveir stigahæstu menn flokksins.

Haustmótið heldur áfram næstkomandi föstudagskvöld er 5.umferð verður tefld. Klukkur verða settar í gang kl.19:30. Birna stendur sem fyrr vaktina á kaffistofunni hvar gestir geta nælt sér í eintak af hennar landsfrægu vöfflum.

Öll úrslit Haustmótsins sem og stöðu allra flokka má finna á Chess-Results. Skákir mótsins eru jafnframt aðgengilegar á sama stað, en innsláttarvélin Daði Ómarsson sér um að tryggja skákunnendum aðgang að þeim.