Hjörvar öruggur sigurvegari HaustmótsinsHaustmóti Taflfélags Reykjavíkur lauk í gærkvöldi þegar níunda og síðasta umferðin var tefld í Skákhöllinni, Faxafeni.

Úrslit í a-flokki voru þegar ráðin en Hjörvar Steinn Grétarsson (2320) hafði tryggt sér sigur þegar tvær umferðir voru ótefldar.  Lokaumferðin snérist því um baráttuna um annað sætið, sem stóð aðallega á milli Lenku Ptacnikovu (2285) og Ingvars Þórs Jóhannessonar (2323), en þau voru jöfn í 2.-3. sæti fyrir lokaumferðina.  Leikar fóru þannig að Lenka vann Jóhann H. Ragnarsson (2118) á meðan Ingvar gerði jafntefli við Kristján Eðvarðsson (2255).  Lenka tryggði sér þar með annað sætið með 6,5 vinning en Ingvar var þriðji með 6 vinninga.

Eðlilega beindust augu flestra að skák forystusauðsins, Hjörvars, og hins margreynda Hellismanns, Sigurbjörns Björnssonar (2287).  Spurningin var hvort að Sigurbirni tækist að stöðva ótrúlega sigurgöngu Hjörvars.  Sigurbjörn var ekki búinn að eiga sitt besta mót og hefur væntanlega verið staðráðinn í að leggja Hjörvar því skákin var æsileg og snörp.  Sigurbjörn hafði hvítt og tefld var Sikileyjarvörn en að vanda tefldi Hjörvar beitt og lagði fljótt af stað í sókn.  Sigurbjörn svaraði sömuleiðis með sóknartaflmennsku, enda mikilvægt í þessari vinsælustu byrjun skákarinnar og úr varð hin mesta skemmtun.  Fljótlega fórnaði Hjörvar hrók, sem Sigurbjörn reyndar þáði ekki, en einhvern veginn náði sókn Hjörvars ekki þeim hæðum sem hann hefur búist við, enda varðist Sigurbjörn vel.  Að lokum tapaði Hjörvar liði og eftir það var aldrei spurning hvoru meginn sigurinn lenti.  Hjörvar gafst upp eftir 33 leiki og það er spurning hvort hann hafi farið sér fullgeyst að þessu sinni, gegn reynslubolta sem er þekktur fyrir stáltaugar og mikla baráttu.

Hjörvar stóð, eftir sem áður, uppi sem sigurvegari með 8 vinninga, 1,5 vinningi meira en Lenka.  Sigurbjörn hafnaði í 4.-5. sæti með 5,5 vinning ásamt Sigurði Daða Sigfússyni (2335), sem er Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2009 eins og segir í fyrri frétt.

Árangur Hjörvars er stórkostlegur en hann samsvarar 2587 skákstigum og fyrir hann græðir hann 37 stig.  Stigalægsti keppandi a-flokksins, hinn ungi og efnilegi Daði Ómarsson (2099), stóð sig vel og fékk 3,5 vinning og græðir 13 skákstig sem þýðir að hann er að rúlla yfir 2100 stiga múrinn.  Sömuleiðis átti Garðbæingurinn, Jóhann H. Ragnarsson (2118), ágætt mót og græðir 17 stig.  Kristján Eðvarðsson (2255), Jón Árni Halldórsson (2202) og Júlíus L. Friðjónsson (2216) vilja líklega gleyma þessu móti sem fyrst en allir tefldu þeir langt undir styrkleika og tapa miklu af stigum.  En svona er skákin; lægðir og hæðir geta verið miklar, samanber magnaðan árangur Hjörvars.

Í b-flokki var dramatíkin öllu meiri því þar var baráttan um sigurinn mjög hörð.  Fyrir lokaumferðina voru Frímann Benediktsson (1950) og Patrekur Maron Magnússon efstir og jafnir með 5,5 vinning og ljóst var að þeir tveir myndu berjast um sigurinn og þar með þátttökurétt í a-flokki að ári.  Patrekur, sem komist hafði upp að hlið Frímanns í áttundu umferðinni eftir brösugt gengi framan af, hafði hvítt gegn Suðurnesjabúanum, Sigurði H. Jónssyni (1889), en Frímann hafði svart gegn hinum eitilharða og unga, Helga Brynjarssyni (1969), sem er búinn að vera í stuði undanfarin misseri.

Niðurstaðan varð sú að Frímann beið lægri hlut gegn Helga á meðan Patrekur gerði jafntefli við Sigurð.  Patrekur stóð því uppi sem sigurvegari b-flokks með 6 vinninga en Helgi og Frímann urðu jafnir í 2.-3. sæti með 5,5 vinning, Helgi ofar á stigum.  Segja má að skák Helga í fjórðu umferð, sem hann gat ekki teflt, hafi verið honum dýrkeypt.

Í raun kemur ekki á óvart að Helgi og Patrekur skuli verma toppsætin enda ungir og efnilegir skákmenn á uppleið.  Frímann átti svo gott mót og á svipuðum nótum og hjá Helga má segja að stutt jafntefli við félaga sinn, Hörð Garðarsson (1884), í fyrstu umferð, í skák þar sem Frímann var líklega með unna stöðu, hafi sömuleiðis reynst honum dýrkeypt.  Í skákinni þarf einfaldlega að horfa framhjá vinskap þegar við skákborðið er sest, sérstaklega þegar keppendur eru í toppbaráttunni og ætla sér að sigra.

Formaður T.R., Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1788), hækkar mest á stigum í flokknum, eða um 22 stig og fer því yfir 1800 stigin.  Hún leiddi lengi vel en slakaði á í seinni hlutanum og hafnaði að lokum í 5.-7. sæti með 4,5 vinning.  Stigahæsti keppandi flokksins, öðlingurin Kristján Örn Elíasson bjargaði sér fyrir horn með ágætis seinni hluta eftir hörmulega byrjun en tapar engu að síður 13 skákstigum.  Svo virðist sem honum gangi muni verr gegn stigalægri andstæðingum og spurningin er hvort hann tefli betur gegn þeim stigahærri því þá sé minni pressa á honum.

Haukamaðurinn, Oddgeir Ottesen (1903), átti skelfilegt mót og fékk aðeins hálfan vinning í síðustu fimm umferðunum, en hann hefur verið á hraðri uppleið að undanförnu.  Fyrir hann er stigatap upp á 50 skákstig staðreynd.

Í c-flokki var spennan ekki síðri en fyrir lokaumferðina leiddu hinn ungi og efnilegi, Friðrik Þjálfi Stefánsson (1694), og Atli Antonsson (1720), sem nýverið hóf taflmennsku aftur af miklum krafti eftir margra ára hlé, með 6,5 vinning.  Baráttan stóð í raun á milli þeirra alveg frá byrjun en þeir gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign.  Niðurstaðan varð sú að Friðrik fékk frían vinning gegn Emil Sigurðarsyni (1515), sinn annan fría vinning í mótinu, á meðan Atli missti líkast til unna stöðu niður í jafntefli gegn Elsu Maríu Kristínardóttur (1766).

Friðrik er því sigurvegari c-flokks með 7,5 vinning og teflir í b-flokki að ári en Atli varð annar með 7 vinninga.  T.R-ingurinn ungi, Páll Andrason (1550), varð svo þriðji með 6 vinninga en hann átti mjög góðan seinni hluta eftir brösuga byrjun og hækkar um 28 skákstig.  Elsa María, sem var sighæsti keppandinn, átti ekki gott mót og lækkar um 29 stig en hún hafnaði í 5.-6. sæti með 4 vinninga.  Hún kemur án efa sterkari til leiks á næsta mót.

Spennustigið í d-flokki náði aldrei miklum hæðum.  Þannig var að í fyrstu umferð mótsins mættu Dagur Andri Friðgeirsson (1775) og Örn Leó Jóhannsson (1728) of seint til leiks en þá var búið að loka fyrir skráningu í lokuðu flokkana og þeir því skráðir í opna flokkinn.  Þeir hefðu annars teflt í c-flokknum og urðu því fyrir vikið langsterkustu keppendurnir í opna flokknum.  Svo fór að Dagur hætti í mótinu eftir fyrstu umferð, líkast til vegna mikils styrkleikamuns á sér og öðrum keppendum.  Örn hélt þó ótrauður áfram og sigraði með yfirburðum en hann lagði alla andstæðinga sína og lauk keppni með 2,5 vinnings forskot á næsta mann, sem var Kristján Heiðar Pálsson (1275).  Þriðji varð svo hinn ungi og efnilegi, Þormar Levi Magnússon, en hann er einmitt bróðir Patreks sem sigraði í b-flokknum.

Verðlaunasæti flokkanna:

a-flokkur

 • 1. Hjörvar Steinn Grétarsson 8v – 100.000 kr
 • 2. Lenka Ptacnikova 6,5 – 30.000 kr
 • 3. Ingvar Þór Jóhannesson 6v – 20.000 kr
 • 4.-5. Sigurbjörn Björnsson 5,5v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010
 • 4.-5. Sigurður Daði Sigfússon 5,5v – Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2009 – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010

b-flokkur

 • 1. Patrekur Maron Magnússon 6v – 20.000 kr og sæti í a-flokki að ári
 • 2.-3. Helgi Brynjarsson 5,5v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010
 • 2.-3. Frímann Benediktsson 5,5v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010

c-flokkur

 • 1. Friðrik Þjálfi Stefánsson 7,5v – 15.000 kr og sæti í b-flokki að ári
 • 2. Atli Antonsson 7v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010
 • 3. Páll Andrason 6v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010

d-flokkur opinn

 • 1. Örn Leó Jóhannsson 9v – 10.000 kr og sæti í c-flokki að ári
 • 2. Kristján Heiðar Pálsson 6,5v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010
 • 3. Þormar Levi Magnússon 5,5v – ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2010

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur vill þakka öllum keppendum fyrir þátttöku sína í mótinu sem og tölvuversluninni Tölvuteki, Borgartúni, fyrir rausnarlegan styrk en án hans hefði mótið ekki náð sömu hæðum og raunin varð.

Öll úrslit ásamt lokastöðu má nálgast á Chess-Results.

Þórir Benediktsson