Hjörvar með 8 af 8 á Haustmótinu!



Senn líður að því að draga þurfi fram sögubækurnar til að finna annan eins viðlíka árangur og hinn ungi, Hjörvar Steinn Grétarsson (2320), er að ná í Haustmótinu.  Í áttundu umferð sem fór fram í gær sigraði hann enn einu sinni og nú var það gjaldkeri T.R., Júlíus L. Friðjónsson (2216), sem lá í valnum.  Skákin taldi 59 leiki og var í nokkru jafnvægi framan af en í miðtaflinu vann Hjörvar peð og fékk nokkra stöðuyfirburði í kjölfarið.  Endataflið þróaðist honum svo í hag þar sem hann hafði drottningu og biskup gegn drottningu og riddara Júlíusar og öruggur sigur Hjörvars var staðreynd.

Hjörvar hefur sem fyrr 2,5 vinnings forskot á toppnum með fullt hús en Ingvar Þór Jóhannesson (2323) og Lenka Ptacnikova (2285) eru áfram jöfn í 2.-3. sæti með 5,5 vinning en bæði unnu þau í gær.

Í b-flokki eru leikar að æsast því Patrekur Maron Magnússon (1954) náði Frímanni Benediktssyni (1950) að vinningum með því að sigra Sigurlaugu Regínu Friðþjófsdóttur (1788) á meðan Frímann gerði jafntefli við Oddgeir Ottesen (1903).  Þeir eru því jafnir á toppnum fyrir lokaumferðina með 5,5 vinning.

Nokkuð óvænt úrslit urðu annarsvegar þegar Hörður Garðarsson (1884) sigraði Kristján Örn Elíasson (1982) eftir að sá síðarnefndi lék illa af sér í gjörunninni stöðu.  Sömuleiðis gerðu Gunnar Finnsson (1790) og Helgi Brynjarsson (1969) jafntefli en Helgi hefur gefið eftir í síðustu tveim umferðunum.  Hann er þó jafn Sigurlaugu í 3.-4. sæti með 4,5 vinning.  Það er því afar líklegt að annaðhvort Frímann eða Patrekur vinni sér inn sæti í a-flokki að ári.

Svipuð staða er í c-flokki en þar náði Atli Antonsson (1720) Friðriki Þjálfa Stefánssyni (1694) að vinningum með sigri á Guðmundi Kristni Lee á meðan Friðrik gerði jafntefli við Eirík Örn Brynjarsson (1648).  Þeir leiða því með 6,5 vinning og munu berjast um sæti í b-flokki að ári því Páll Andrason hefur 5 vinninga í þriðja sæti þegar aðeins ein umferð er eftir.

Örn Leó Jóhannsson (1728) leiðir enn d-flokkinn með fullu húsi en andstæðingur hans mætti ekki til leiks.  Kristján Heiðar Pálsson (1275) stökk upp í 2. sætið með 5,5 vinning en tveir skákmenn koma næstir með 5 vinninga.

Níunda og síðasta umferðin fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.

Á heimasíðu mótsins má nálgast öll úrslit.

Skákir 9. umferðar í beinni útsendingu. (Tengilli virkjast skömmu fyrir umferð).