Góður árangur ungra liðsmanna T.R.Síðastliðinn fimmtudag fór fram veglegt Jólamót Skákskóla Íslands og Skákakademíu Kópavogs þar sem TR-ingar létu sig ekki vanta.  Árangur þeirra var sérlega góður en þeir Vignir Vatnar Stefánsson, Björn Hólm Birkisson og Bárður Örn Birkisson voru meðal sex efstu að móti loknu.  Vignir Vatnar varð annar með 7,5 vinning af níu, Björn Hólm varð þriðji með 6,5 vinning og tvíburabróðir hans, Bárður Örn, hlaut 6 vinninga og hafnaði í 4.-6. sæti.  Þá krækti Guðmundur Agnar Bragason sér í stigaverðlaun keppenda undir 1400 Elo stigum en hann lauk keppni með 5,5 vinning.

 

Á laugardag fór síðan fram hið glæsilega Friðriksmót Landsbankans sem jafnframt er Íslandsmótið í hraðskák og þar var Gauti Páll Jónsson mættur ásamt mörgum öðrum úr Taflfélagi Reykjavíkur.  Gauti Páll stóð sig mjög vel, fékk 6 vinninga af 11 og var með bestan árangur keppenda 16 ára og yngri.  Í heildarkeppninni varð Gauti Páll í 27.-36. sæti af tæplega 80 keppendum og vann hann m.a. Stefán Bergsson en á þeim munar 500 Elo stigum.  Þá tapaði Gauti Páll ekki skák í síðustu fimm umferðunum þar sem hann mætti mun stigahærri skákmönnum í flestum þeirra.  Sannarlega glæsilegur árangur!