Hjörvar, Guðmundur og Arnar Ingi með fullt hús eftir þrjár umferðir í Haustmótinu



Nú styttist óðum í að línur fari kannski að skýrast í haustmótinu. Ekki alveg strax – en það styttist! Hjörvar og Gummi halda áfram á beinu brautinni og eru með fullt hús í A-flokknum. Hjörvar vann Braga í stórmeistaraslagnum og Gummi vann Daða í flóknu byrjunarafbrigði. Önnur úrslit urðu þau að Vignir Vatnar vann Alexander Oliver og Baldur Kristinsson vann Stefán Bergsson. Í næstu umferð fær meðal annars Fide-meistarinn ungi, Vignir Vatnar Stefánsson að spreyta sig gegn Braga Þorfinnssyni. Úrslit

Hvar er Hjörvar með fæturnar?

Hvar er Hjörvar með fæturnar?

Í B-flokknum er Guðni Stefán Pétursson einn efstur með 2.5 vinning eftir jafntefli gegn Sævari Bjarnasyni. Önnur úrslit urðu þau að Lenka vann Símon, Aron Þór Mai vann Mikael Jóhann og Haraldur Haraldsson vann Gauta Pál eftir að sá síðarnefndi klúðraði vænlegri stöðu niður í tap. Á eftir Guðna koma þeir Aron og Símon með tvo vinninga. Þeir Guðni og Símon mætast einmitt í næstu umferð í mikilvægri skák. Úrslit

gudni

Í C-flokknum kom það helst til tíðanda að Gunnar Erik Guðmundsson (1710) vann félaga sinn úr Breiðablik, Benedikt Briem (1906). Jafntefli reyndist niðurstaðan í skák Jóhanns Arnars og Aasefs, og einnig í skák Arnars Heiðarssonar og Péturs Pálma. Jóhann Ragnarsson vann Helga Pétur. Aasef og Pétur Pálmi eru efstir í flokknum með 2.5 vinning og mætast í næstu umferð. Úrslit

aasef

Nú eru línur farnar að skýrast í opna flokknum en Arnar Ingi Njarðarson (1370) vann talsvert stigahærri mann, Sigurð J. Sigurðsson (1484) og er einn efstur í flokknum með fullt hús. Þorsteinn Magnússon og Ingvar Wu eru skammt undan með 2.5 vinning og skari manna hafa tvo vinninga. Í næstu umferð stýrir Arnar Ingi svörtu mönnunum gegn Þorsteini. Vinni Arnar þá skák er staða hans ansi vænleg fyrir lokasprettinn. Úrslit

arnar

Næsta umferð haustmótsins fer fram sunnudaginn 15. september klukkan 13 í húsnæði TR, Faxafeni 12. Gestir og gangandi hafa greinilega fylgst vel með greinaskrifum mínum (Hver ætli ég sé?) enda hafa ýmsir komið og fylgst með skákunum í rauntíma, og rætt í leiðinni um lífsins gagn og nauðsynjar. Minnt er á að Birnukaffi er opið, sem sér til þess að öngvin maður setjist kaffilaus niður við viðarborðin köflóttu.