Vignir Vatnar byrjar með sigri



Hinn ungi og efnilegi liðsmaður Taflfélags Reykjavíkur, Vignir Vatnar Stefánsson, tekur þátt fyrir Íslands hönd í Heimsmeistaramóti ungmenna sem hófst í dag í Maribor, Slóveníu.  Vignir, sem er á tíunda aldursári, er á meðal tæplega 200 keppenda í opnum flokki tíu ára og yngri.  Mótið er gríðarlega fjölmennt og telur alls tæplega 1.600 keppendur sem koma frá u.þ.b. eitthundrað löndum en keppt er í tólf flokkum.  Í sínum flokki er Vignir rétt fyrir ofan miðjan hóp í stigaröðinni.  Með Vigni í för er faðir hans ásamt stórmeistaranum Helga Ólafssyni.

 

Alls eru tefldar ellefu umferðir og fer síðasta umferðin fram sunnudaginn 18. nóvember en hvílt  er á þriðjudag.  Fyrsta umferð fór fram í dag og hafði Vignir betur með svörtu gegn keppanda frá Singapore.  Önnur umferð hefst á morgun föstudag kl. 14 að íslenskum tíma en ekki liggur fyrir hverjum Vignir mætir.  Athygli er vakin á því að skákir tíu efstu borðanna í flokki Vignis eru sendar beint út á vefnum.

 

  • Heimasíða mótsins
  • Úrslit, staða og pörun
  • Beinar útsendingar