Hjörvar er “on fire” á HaustmótinuHinn ungi rauðbirkni Hellisbúi, Hjörvar Steinn Grétarsson (2320), stefnir ótrauður að sigri á Haustmótinu í ár en í gær vann hann enn einn sigurinn þegar reynsluboltinn, Kristján Eðvarðsson (2255), laut í gras fyrir honum.  Byrjun Hjörvars í mótinu er með ólíkindum en hann er með fullt hús vinninga að loknum fimm umferðum.  Árangur hans samsvarar 3047 skákstigum, sem reyndar er ekki alveg marktækur útreikningur fyrr en hann tapar niður a.m.k. hálfum vinningi.  Það sem hinsvegar er marktækt er núverandi stigagróði upp á 30 stig!

Eðlilega, þá leiðir Hjörvar a-flokkinn en Lenka Ptacnikova (2285) er önnur með 3,5 vinning eftir sigur á hinum unga, Daða Ómarssyni (2099).  Lenka og Hjörvar mætast í sjöttu umferð nú á miðvikudag.  Fide meistararnir, Ingvar Þór Jóhannesson (2323) og Sigurbjörn Björnsson (2287), eru jafnir í 3.-4. sæti með 3 vinninga.

Spennan í b-flokki heldur áfram en þar leiða Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (1788) og Frímann Benediktsson (1880) með 3,5 vinning en Sigurlaug er líkast til að eiga sitt besta mót í langan tíma.  Helgi Brynjarsson (1969) og Oddgeir Ottesen (1903) eru jafnir í 3.-4. sæti með 3 vinninga en Oddgeir hefur bætt sig mjög mikið undanfarin misseri.

Í c-flokki náði Atli Antonsson (1720) Friðriki Þjálfa Stefánssyni (1694) á toppnum með því að sigra Birki Karl Sigurðsson (1445) í mikilli maraþon skák á meðan að Friðrik gerði jafntefli við Elsu Maríu Kristínardóttur (1766).  Þeir leiða því með 4 vinninga en Eiríkur Örn Brynjarsson (1648) er þriðji með 3,5 vinning.

Úrslit í d-flokki virðast svo gott sem ráðin en þar leiðir Örn Leó Jóhannsson (1728) með fullu húsi.  Fjórir keppendur eru jafnir í 2.-5. sæti með 3,5 vinning.

Sjötta umferð fer fram nk. miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.

Á heimasíðu mótsins má nálgast öll úrslit.