Vigfús Ó. Vigfússon, Skákfélaginu Hugin, skrifar
Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson sem tefldi fyrir Suzuki bíla sigraði á 31. Borgarskákmótinu sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur á miðvikudaginn 17. ágúst sl. Þá voru rétt tæp 30 ár síðan fyrsta Borgarskákmótið fór fram í Lækjargötu á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst 1986. Helgi sigraði alla andstæðinga sína og lauk móti með 7 vinninga. Þetta er í þriðja sinn sem Helgi Áss sigrar á mótinu en nokkuð langt er um liðið síðan því hann vann mótin 1992 og 1994. Suzuki bílar brutu hins vegar blað í sögu keppninnar og voru fyrsta fyrirtækið til að vinna mótið í tvisvar en þeir höfðu áður unnið mótið 2008 en deildu þá efsta sætinu með Ístak.
Formaður borgarráðs og staðgengill Borgarstjóra Sigurður Björn Blöndal setti mótið, Að því loknu lék hann fyrsta leiknum í skák Jóhanns Hjartarsonar (Hlaðbær Colas hf) og Birkis Karls Sigurðssonar (Samhentir kassagerð). Mótið í ár var vel sótt en alls tóku 71 keppendur þátt að þessu sinni. Skráning í mótið fór hægt að stað og margir skráaðu sig seint og sumir ekki fyrr en á skákstað. Fyrirfram var gert ráð fyrir að keppendur yrðu ekki fleiri en 70 og líklegur þátttakendafjöldi væri í kringum 60 og voru aðeins 36 skáksett á staðnum. Nokkuð var um misröðun í settunum frá fyrri mótum þannig að aðeins náðust 35 nokkuð heil sett út úr þeim töflum. Þar í vantaði eina svarta drottningu og í snatri kveðinn upp sá úrskurður á því borði væri svartur hrókur á hvolfi ígildi drotttningar. Þessi svarti hrókur á hvolfi gekk svo á milli borða eftir umferðum eins og heita kartaflan sem enginn vildi hafa.
Átta titilhafar tóku þátt í mótinu og fyrirfram máttti búast við harðri keppni þeirra á milli um sigur á mótinu. Sú varð líka raunin því þeir tóku sjö af 10 efstu sætunum. Þrír titillausir keppendur komust á milli þeirra. Þeirra fremstur var skákdómarinn Omar Salama (Efling stéttarfélag) sem varð annar í mótinu með 6v eins og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (Verkalýðsfélögið Hlíf) sem var þriðji en Omar var sjónarmun á undan á stigum.
Yfir sjötíu ára aldursmunur var á yngsta og elsta keppenda mótsins þeim Tryggva Jónssyni (8) og Magnúsi V. Jónssyni (83) sem á árum áður var þekktur knattspyrnudómari og stóðu þeir báðir sig með prýði. Yngri skákmenn voru nokkru færri en oft áður þar sem 11 manna hópur fór á HM ungmenna daginn áður. Þeir sem heima sátu stóðu fyrir sínu en fremstur fór Oliver Aron Jóhannesson (Borgun hf) sem hlaut 5,5v. Skammt undan komu svo Jón Trausti Harðarson (Reykjavíkurborg) með 5v og Örn Leó Jóhannsson (Sorpa) með 4,5v.
Af titillausum skákmönnum náði Bragi Halldórsson (Hamborgarabúlla Tómasar) athygliverðum árangri með því að lenda í 4 sæti með 5,5v eins og Oliver Aron en Bragi hafði 4. sætið á stigum. Bragi tapaði aðeins fyrir sigurvegara mótsins og gerði jafntefli við Oliver í lokaumferðinni en vann aðra andstæðinga. Sá þriðji án titils sem var í topp 10 var Ögmundur Kristinsson (Ís-spor) sem fékk 5v.
Af stúlkunum stóð Lenka Ptacniková (Hreyfill/Bæjarleiðir) sig best (4v), Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (Hlölla bátar) (4v) og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (Góa/Linda sælgætisgerð) (4). Það verður nóg að gera hjá þeim því kvennalandsliðið fer í æfingabúðir á Reykhólum um næstu helgi og tekur þátt í minningarmóti um Birnu Norðdahl á laugardaginn.
Töluverður fjöldi áhorfenda var á mótinu, þá aðalega túristar sem staddir voru í Ráðhúsinu og fylgdust spenntir með af pallinum. Meðan skákstjórar brugðu sér í mat fyrir mótið notuð margir þeirra tækifærið og settust að tafli þannig að þegar þeir komu til baka úr matnum voru túristar búnir að yfirtaka skáksalinn þannig að annað hvert borð var setið og tiltölulega fáir túristar við landakortið.
Skákfélagið Huginn vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt, Borgarinnar fyrir að hýsa mótið, Taflfélagi Reykjavíkur fyrir samstarfið og síðast en ekki síst þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu mótið.
Sjáumst að ári!