Laugalækjarskóli heldur í vonina



Litháarnir héldu áfram að sýna styrk sinn í 5. umferð hér í Varna.  Þeir unnu nú Hvít-Rússa 3-1 og hefðu vel getað unnið 4-0, þar sem Laurusaite lék sig í mát á 3. borði (en það er í annað sinn sem það gerist).  Laugalækjarskóli hélt í vonina um sigur með sigri á Búlgaríu, sömuleiðis 3-1.  Í síðustu umferð mætast Laugalækjarskóli og Litháen og verða strákarnir okkar að vinna 4-0 til að hafa sigur í mótinu.

 

Staðan eftir 5. umferð:

 

1. Litháen 13 (9 MP)

2. Laugalækjarskóli 10 (5 MP)

3. Búlgaría 9

4. Hvíta-Rússland 8

 

Laugalækjarskóla dugar ekki að vinna Litháen í síðustu umferð 3,5-0,5, því þá vinna Litháar á Match Points.

 

Úrslit 5. umferðar:

 

Litháen – Hvíta-Rússland 3-1

 

Laugalækjarskóli – Búlgaría 3-1

 

1. Daði Ómarsson – Tihomir Janev 0-1

2. Matthías Pétursson – Georgi Krumov 1-0

3. Einar Sigurðsson – Ani Krumova 1-0

4. Aron Ellert Þorsteinsson – Mishel Georgiev 1-0

 

Daði kom inn í liðið á nýjan leik og hafði góð áhrif á liðsfélaga sína, enda voru þeir Einar og Aron snemma komnir með unnið.  Kannski spilaði það inn í að Daði fékk góða stöðu í byrjun og virtist vera að snúa Búlgarann niður.  Daði gengur bara, því miður, ekki heill til skógar í þessu móti.  Hann hefur hvað eftir annað fengið góðar stöður, en þegar hann er byrjaður að herða tökin í miðtaflinu byrja höfuðverkirnir og þá er erfitt  að halda einbeitingunni.  Sú varð aftur raunin í dag og Búlgarinn brellni hafði að lokum sigur.

 

Daði er samt hvergi nærri bugaður; hann teflir aftur á morgun og vonandi klárar hann dæmið þá.  Hann hefur löngum reynst liðinu mikilvægastur þegar mest er lagt undir.

 

Mikilvægasti liðsmaðurinn hingað til er hinsvegar, án efa, Matti sem hélt uppteknum hætti og vann sína skák og er þá búinn að vinna allar fimm.  Núna skellti hann Grjótgarðinum á andstæðinginn, sem tefldi veiklulega á móti.  Matti vann tvö peð og sveið endatafl með mislitum biskupum.  Sennilega átti Póllandsferðin einhvern þátt í þessum sigri, en bæði Matti og Villi voru þar sviðnir af hinum háruga Grzegorz Stala (sbr. hugtakið “svíðingur a la Stala”) og Villi í endatafli með mislitum biskupum.

 

Einar var fljótt kominn með unnið, en andstæðingur hans lék af sér drottningunni í erfiðri stöðu.  Það er greinilegt að það er farið að síga á síðari hlutann í þessu móti og þreyta farin að gera vart við sig hjá sumum.  Stelpan barðist hinsvegar vel eftir drottningarmissinn (hún hafði biskup fyrir) og Einar fór dálítið langa leið að sigrinum (sem þó var aldrei í hættu).

 

Það var eins hjá Aroni, andstæðingur hans lék af sér manni, en þá lenti Aron með drottninguna á hrakhólum.  Honum tókst þó að rétta úr kútnum og hafði sigur að lokum.  Þetta var mikilvægur sigur fyrir Aron.  Hann var með góðar stöður í fyrstu tveimur skákunum (sem töpuðust báðar) og stóð til vinnings í gær, en mátti sætta sig við jafntefli.  Það var því gott fyrir hann að enda á sigri.

 

Á morgun kemur Villi aftur inn í liðið, enda keppnismaður mikill.  Við verðum að vinna 4-0 og ætlum að leggja allt í sölurnar.  Ég er búinn að segja við strákana að leggja allt í sölurnar; ég tek ábyrgð á því ef liðið dettur niður úr 2. sætinu.  Enda er það ekkert keppikefli fyrir okkur að enda í 2. eða 3. sæti.  Við lentum í 2. í fyrra og við fáum ekki aftur tækifæri til að vinna þetta mót.  Það er því nú eða aldrei.

 

Annars finnst mér það ekki vera beint markmið okkar að vinna þetta mót.  Markmið okkar er að tefla.  Hinsvegar finnst mér það skylda okkar að tefla til sigurs og leggja allt í sölurnar.

 

Í kvöld var haldið hraðskákmót á hótelinu, með elstu krökkunum og þjálfurunum og þá bauð Litháíski liðsstjórinn mér 2-2 jafntefli fyrir morgundaginn.  Ég hef samúð með kallinum og ber mikla virðingu fyrir honum, en auðvitað var þessu boði hafnað.  En ég erfi þetta ekki við hann, hann er bara alinn upp í þessum Austur-Evrópska skóla.  Ég held líka að hann sé að gera fína hluti með krakkana sína.

 

Annars var það 1. borðsmaður Búlgörsku sveitarinnar sem vann hraðskákmótið, en við Steini urðum í 3. sæti ásamt nokkrum öðrum.  Mér var úrskurðað 3. sætið á stigum og hlaut heilar 25 Levur í verðlaun (c.a. 1250 kr.).

 

Í dag var síðan heitasti dagur í hitabylgjunni.  Það er svo heitt að það er varla hægt að hugsa, hvað þá stúdera.  Ég leyfði strákunum að sofa aðeins lengur og hvíla sig/kæla sig í lauginni.  Stúderaði aðeins minna með strákunum.

 

Við erum komnir með nokkuð fastan rytma.  Allir strákarnir stúdera að jafnaði 1 klst. með mér á hverjum degi, sá fyrsti kl.7.30-8.30, sá næsti kl.9-10, svo 10.30-11.30 og loks 11.30-12.30.  Síðan ráða strákarnir hvað þeir stúdera mikið sjálfir, en ég vil helst ekki að þeir stúderi mikið meira en 1 klst. til viðbótar, enda verða menn að vera vel úthvíldir.

 

Síðan er hádegismatur, svo skákin, kvöldmatur, liðsfundur kl.22.00 og loks eiga allir að vera komnir inn á herbergi kl.23.00.  Ég var svolítið sveigjanlegri á öllum tímum til að byrja með í mótinu, en hefði betur verið með fasta tíma, enda er það þægilegra fyrir alla.

 

Jæja, nóg í bili.  Á morgun verða tefldar spennandi skákir.

 

Torfi Leósson