Haustmótið: Keppni hálfnuð – Sverrir efstur fyrir hléHaukamaðurinn ungi, Sverrir Þorgeirsson (2223), er einn í efsta sæti með 4,5 vinning þegar fimm umferðir hafa verið tefldar.  Í fimmtu umferð, sem fór fram í gærkvöldi, sigraði Sverrir Gylfa Þórhallsson (2200) eftir að Gylfi lék af sér manni í nokkuð jafnri stöðu.  Á meðan gerðu Þorvaður Ólafsson (2205) og Daði Ómarsson (2172) jafntefli og þar með skaust Sverrir hálfum vinningi fram úr Daða sem hefur 4 vinninga.  Stórmeistarinn, Þröstur Þórhallsson (2381), og Sigurbjörn Björnsson (2300) skutust upp í 3.-4. sæti með 3 vinninga eftir sigra í gær.  Sigurbjörn vann Sverri Örn Björnsson (2161) í mikilli stöðubaráttuskák en Þröstur vann fremur auðveldan sigur á Guðmundi Gíslasyni (2346) sem hefur ekki átt gott mót.

Sverrir Þorgeirsson situr því einn á toppnum þegar hlé verður gert á mótinu vegna afmælishófs T.R. og Íslandsmóts skákfélaga sem fer fram um næstu helgi.  Sjötta umferð fer fram miðvikudaginn 13. október og hefst kl. 19.30.

Öllum skákum b-flokks lauk með jafntefli utan viðureignar Ögmundar Kristinssonar (2050) og Jorge Fonseca (2024) þar sem Ögmundur hafði sigur og skaust þar með upp í 2.-3. sæti ásamt alþjóðlega meistaranum, Sævari Bjarnasyni (2148), sem gerði jafntefli við Þór Valtýsson (2078).  Stefán Bergsson (2102) er áfram efstur með 4 vinninga eftir stutt jafntefli við Eirík K. Björnsson (2038).

Í c-flokki er Páll Sigurðsson (1884) í óhemju stuði og vann núna Ólaf Gísla Jónsson (1891). Páll er efstur með 4,5 vinning og heldur eins vinnings forskoti á Inga Tandra Traustason (1808) sem lagði Svanberg Má Pálsson (1781) eftir að Garðbæingurinn ungi fór of geyst í mannsfórnum snemma skákar.  Í þriðja sæti með 3 vinninga er Jon Olav Fivelstad (1853).

Baráttan í d-flokki harðnar enn.  Páll Andrason (1604) og Birkir Karl Sigurðsson (1466) unnu báðir sínar viðureignir og deila efsta sætinu með 4 vinninga.  Jafnir í 3.-4. sæti með 3,5 vinning eru Guðmundur Kristinn Lee (1553) og Snorri Sigurður Karlsson (1585).

Í opnum e-flokki heldur Grímur Björn Kristinsson enn forystunni með fullu húsi en jöfn í 2.-3. sæti með 4 vinninga eru Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Jóhannes Kári Sólmundarson.

Hlé verður nú gert á Haustmótinu.  Sjötta umferð hefst miðvikudaginn 13. október kl. 19.30.

Allar nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins.