Haustmót T.R. 2009 hafið



Í dag hófst Haustmót Taflfélags Reykjavíkur þegar 48 keppendur hófu leik í húsnæði félagsins að Faxafeni 12.  Að þessu sinni er teflt í þremur lokuðum tíu manna flokkum og einum opnum flokki sem í ár telur 18 keppendur.

Skákir a-flokks í fyrstu umferð voru nokkuð rólegar og báru þess merki að skákmenn ætluðu sér að fara hægt í sakirnar.  Þó var skák hins unga og rauðbirkna, Hjörvars Steins Grétarssonar (2320), og hins margreynda Garðbæings, Jóhanns H. Ragnarssonar (2118), mjög snörp þar sem æði virtist grípa þann síðarnefnda þegar hann lét fórnirnar dynja á hinum unga andstæðingi sínum.  Ekki báru þær þó árangur að þessu sinni og Hjörvar sigraði örugglega í 31 leik.

Einnig vakti athygli slæmur afleikur jafntefliskóngsins, Jóns Árna Halldórssonar (2202), gegn öðrum efnilegum unglingi, Daða Ómarssyni (2099), en í 16. leik lék hann af sér manni og gafst umsvifalaust upp.

Öðrum skákum í a-flokki lauk með jafntefli.

Úrslit a-flokks:

  Halldorsson Jon Arni  0 – 1   Omarsson Dadi 
  Edvardsson Kristjan  ½ – ½ FM Sigfusson Sigurdur 
WGM Ptacnikova Lenka  ½ – ½ FM Johannesson Ingvar Thor 
  Gretarsson Hjorvar Steinn  1 – 0   Ragnarsson Johann 
  Fridjonsson Julius  ½ – ½ FM Bjornsson Sigurbjorn 

Óvæntustu úrslit fyrstu umferðar litu hinsvegar dagsins ljós í b-flokki þegar Frímann Benediktsson (1950) og Hörður Garðarsson (1884) gerðu jafntefli.  Skákin var að þessu sinni nokkuð löng eða 16 leikir.  Önnur úrslit komu ekki mikið á óvart nema hvað að skákfrömuðurinn, Kristján Örn Elíasson (1982), tapaði fyrir Suðurnesjabúanum geðþekka, Sigurði H. Jónssyni (1889), en Kristján hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og stefnir hátt í skákheiminum.

Það er ljóst að b-flokkur verður mjög spennandi og gaman verður að fylgjast með hvort eldri kynslóðin í flokknum muni hafa í fullu tré við hina ungu Patrek Maron Magnússon (1954) og Helga Brynjarsson (1969).

Úrslit b-flokks:

Gardarsson Hordur  ½ – ½ Benediktsson Frimann 
Fridthjofsdottir Sigurl  Regin  1 – 0 Ottesen Oddgeir 
Jonsson Sigurdur H  1 – 0 Eliasson Kristjan Orn 
Finnsson Gunnar  0 – 1 Magnusson Patrekur Maron 
Brynjarsson Helgi  ½ – ½ Sigurdsson Pall 

c-flokkur er ólíkur b-flokki að því leyti að þar er mun meiri stigamunur á milli keppenda.  Í c-flokki tefla m.a. Atli Antonsson (1720) og Gústaf Steingrímsson (1667) en þeir tefldu báðir mikið á árum áður þó líkast til sé nokkuð lengra síðan Gústaf stundaði skákina að staðaldri.

Að þeim tveimur undanskildum eru allir keppendur c-flokks undir tvítugu og nánast ómögulegt að spá fyrir um úrslitin í flokknum.  Elsa María Kristínardóttir (1766) líkleg til að halda uppi heiðri kynsystra sinna og Friðrik Þjálfa Stefánsson (1694) skal ekki afskrifa en hann er einn af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar.

Úrslit c-flokks:

Lee Gudmundur Kristinn  0 – 1 Kjartansson Dagur 
Kristinardottir Elsa Maria  ½ – ½ Steingrimsson Gustaf 
Andrason Pall  0 – 1 Antonsson Atli 
Stefansson Fridrik Thjalfi  1 – 0 Sigurdsson Birkir Karl 
Brynjarsson Eirikur Orn  ½ – ½ Sigurdarson Emil 

Eins og áður segir er d-flokkur opinn og etja þar kappi 18 keppendur, þeirra stigahæstur og sigurstranglegastur er Fjölnismaðurinn ungi, Dagur Andri Friðgeirsson (1775), en skammt á eftir honum kemur hinn ungi og efnilegi, Örn Leó Jóhannsson (1728).  Það verður að teljast líklegt að þeir tveir muni berjast um sigurinn í flokknum.

Úrslit d-flokks:

Kolka Dawid  0 0 – 1  0 Fridgeirsson Dagur Andri 
Johannsson Orn Leo  0 1 – 0  0 Magnusson Gudmundur Freyr 
Gestsson Petur Olgeir  0 0 – 1  0 Hafdisarson Ingi Thor 
Palsson Kristjan Heidar  0 1 – 0  0 Jonsson Robert Leo 
Palsdottir Soley Lind  0 0 – 1  0 Fridgeirsson Hilmar Freyr 
Steingrimsson Brynjar  0 1 – 0  0 Helgason Stefan Mar 
Kristjansson Sverrir Freyr  0 0 – 1  0 Kristbergsson Bjorgvin 
Olafsdottir Asta Sonja  0 0 – 1  0 Magnusson Thormar Levi 
Kristjansson Throstur Smari  0 0 – 1  0 Hallsson Johann Karl 
  • Heimasíða Haustmótsins