Hannes efstur fyrir lokaumferð Wow air vormótsinswow_air_2015_r5-3

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson en einn efstur fyrir lokaumferðina í Wow air vormóti Taflfélags Reykavíkur.  Mikið var um frestanir í sjöttu umferðinni enda eru margir keppenda að þreyta próf um þessar mundir.

hannes_h_stefansson

Hannes sem sigraði Ingvar Þór Jóhannesson örugglega í frestaðri skák á miðvikudagskvöldið er með fimm vinninga eftir sex skákir, hálfum vinning á undan Davíð Kjartanssyni sem gerði jafntefli við Sigurð Daða Sigfússon í 100 leikja marathon og tímahraksskák.  Sigurður varðist þar afar fimlega í flókinni og erfiðri stöðu og í tímahraki í ofanálag.

Sigurður og Einar Hjalti Jensson sem sigraði alþjóðameistarann Braga Þorfinnsson í spennandi skák eru svo jafnir í þriðja til fjórða sæti með fjóra vinninga.

Í B flokki eru Halldór Pálsson sem sigraði Stefán Bergsson örugglega og Sverrir Örn Björnsson sem gerði jafntefli við landsliðskonuna Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur efstir, en þeir hafa báðir fjóra og hálfan vinning eftir sex skákir.  Hinn ungi Vignir Vatnar Stefánsson  er þriðji með fjóra vinninga en hann sigraði Jóhann Óla Eiðsson sannfærandi.


wow_2015_r2-24

Í lokaumferðinni í A flokki sem fer fram á mánudagskvöld mætast meðal annarra Einar Hjalti og Hannes, Ingvar Þór og Kjartan og Sigurður Daði mætir Degi Ragnarssyni.

Í B flokki mætir Sverrir Örn Stefáni Bergssyni, meðan liðsfélagarnir úr TR og sigurvegararnir úr yngri og eldri flokk Landsmótsins í skólaskák þeir Vignir Vatnar og Björn Hólm Birkisson leiða saman hesta sína.

Úrslit staða og pörun í báðum flokkum má finna hér

wowair_tr_banner1_2015

Allir velkomnir í fenið á spennandi lokaumferð í Wow air mótinu og það verður heitt á könnunni!