Björn Ívar Karlsson í þjálfarateymi Taflfélags ReykjavíkurBjörn Ívar KarlssonTaflfélag Reykjavíkur hefur ráðið Björn Ívar Karlsson sem þjálfara framhaldshóps félagsins. Björn Ívar hefur FIDE þjálfaragráðu og er einn reyndasti skákþjálfari landsins. Hann hefur unnið með mörgum af efnilegustu skákbörnum landsins undanfarin ár, auk þess sem hann er landsliðsþjálfari kvenna. Þá er Björn Ívar höfundur kennsluefnis sem finna má á hinum veglega skákvef skakkennsla.is en þar er að finna yfir 100 kennslumyndbönd sem Björn Ívar talar sjálfur inn á. Björn Ívar hefur ekki aðeins náð góðum tökum á skáklistinni í gegnum þjálfun heldur einnig sem keppnismaður því nýverið lyfti hann sér yfir 2300 skákstig og hlaut fyrir vikið nafnbótina FIDE-meistari.

Yfirgripsmikil þekking Björns Ívars á skákfræðum og skáksögu er mörgum kunn. Þessi þekking í bland við þá náðargáfu hans að miðla þekkingu á hvetjandi hátt til barna af ólíkum skákstyrkleika gerir það að verkum að Taflfélag Reykjavíkur lítur á Björn Ívar sem mikinn hvalreka fyrir barna- og unglingastarf félagsins.

Taflfélag Reykjavíkur býður Björn Ívar Karlsson hjartanlega velkominn í þjálfarateymi félagsins.