Halldór Pálsson og Gylfi Þór Þórhallsson eru efstir og jafnir með 5 vinninga í Vetrarmót öðlinga. Í sjöttu og næstsíðustu umferð sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld vann Gylfi Harald Baldursson og Halldór lagði stigahæsta keppanda mótsins, Hrafn Loftsson. Haraldur, Jon Olav Fivelstad og Magnús Pálmi Örnólfsson koma næstir með 4,5 vinning en fimm keppendur hafa 4 vinninga. Það verður sannkölluð úrslitaviðureign í lokaumferðinni næstkomandi miðvikudagskvöld en þá stýrir Gylfi hvítu mönnunum gegn Halldóri. Báðir eru þeir þekktir fyrir sókndjarfa taflmennsku og því má búast við harðri baráttu. Að auki mætast Haraldur og Magnús sem og Hrafn og Jon Olav.
Lokaumferðin hefst kl. 19.30 og eru áhorfendur velkomnir en ávallt er heitt á könnunni.
- Úrslit, staða og pörun
- Skákir: 1 2
- Vetrarmót öðlinga 2012
- Vetrarmót öðlinga 2011