Hjörvar öruggur sigurvegari áskorendaflokksHjörvar Steinn Grétarsson (2320) sigraði af miklu öryggi í áskorendaflokki Skákþings Íslands sem lauk í dag.  Hjörvar hlaut 8 vinninga í níu umferðum og leyfði aðeins tvö jafntefli en næstu menn voru 1,5 vinningi á eftir honum.  Í síðustu umferðinni sigraði hann norðlendinginn, Stefán Bergsson (2070), í snarpri skák þar sem Stefán tefldi hið hvassa Sozin afbrigði gegn Sikileyjarvörn Hjörvars.  Stefán fórnaði manni fyrir þrjú peð snemma skákar í nokkuð þekktu þema en Hjörvar varðist vel og hafði að lokum sigur í 32 leikjum.

Sigur Hjörvars kemur líkast til ekki á óvart en væntanlega bjuggust fáir við fyrir mót að fimm skákmenn myndu hafna í skiptu öðru sæti.  Það var einmitt raunin því alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2171), Þorvarður F. Ólafsson (2211), Jorge Fonseca (2009), Fide meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson (2286) og ofangreindur Stefán enduðu allir með 6,5 vinning.  Sævar sigraði Helga Brynjarsson (1969) örugglega eftir slæman afleik þess síðarnefnda, Jorge og Þorsteinn gerðu jafntefli í rólegri skák þar sem frönsk vörn var tefld og Þorvarður lagði Kristján Örn Elíasson (1982).

Ofangreindir fimm skákmenn munu tefla innbyrðis um laust sæti í landsliðsflokki að ári.

Lokastöðu og öll úrslit má nálgast á Chess-Results.  Allar skákir mótsins má finna á skákhorninu en Eyjólfur Ármannsson sá um innslátt þeirra.

Árangur T.R.-inga verður birtur í sérstakri frétt.

  • Heimasíða SÍ
  • Chess-Results
  • Skákirnar