Gagnfræðaskóli Akureyrar A sveit vann Gaggann 2015!



Gagnfræðaskóli Akureyrar kom sá og sigraði á sjötta skemmtikvöldi Taflfélags Reykjavíkur – Gagganum 2015 sem haldið var í Skákhöllinni síðastliðið föstudagskvöld.  Þátttaka þessarar ofursveitar virðist hafa skotið skólum höfuðborgarsvæðisins skelk í bringu því engin sveit kom þaðan þrátt fyrir áskorun forsprakka sigursveitarinnar, hins vaska framkvæmdastjóra Skákakademíunnar Stefáns Bergssonar. 

Grunnskóli Bolungarvíkur var þó alveg óttalaus og mætti með grjótharða sveit sem háði harða baráttu við Stúlknasveitina Omar um annað sætið.  Sú sveit var skipuð landsliðskonunni Hallgerði Helgu Þorsteindóttur, Sigríði Björgu Helgadóttur og ofurdómaranum Omar Salama.  Þrátt fyrir gríðarlega góðan liðsanda og sigurvilja Bolvíkinga tókst þeim ekki að skáka þessari óvæntu sveit Omars enda sú sveit á jaðrinum við að uppfylla reglur keppninnar og virtust andstæðingarnir oft á tíðum ráðvilltir.  Ofurlögfræðingurinn og jakkafataplebbinn (á hraðri niðurleið) Halldór B. Halldórsson hafði engar athugasemdir fram að færa varðandi þátttöku stúlknasveitar Omars og fannst öðrum þá ekki tilefni til kvartana.

Í fjórða sæti og þar með hársbreidd frá verðlaunum varð síðan B sveit Gagnfræðaskóla Akureyrar.  Voru liðmennirnir eðlilega svekktir enda jafnvel nær því að ná takmarki sínu en samræmdu prófunum á sínum tíma.

Sigursveit Gagnfræðaskóla Akureyrar skipuðu þeir Stefán Bergsson, Halldór B. Halldórsson og Pálmi R. Pétursson og hlutu þeir í verðlaun forláta gráðuboga og reglustrikur auk kókómjólkur á Billanum.

Úslit:

Gagnfræðaskóli Akureyrar A  20 1/2 v.

Stúlknasveitin Omar  14 v.

Grunnskóli Bolungarvíkur 13 1/2 v.

Gagnfræðaskóli Akureyrar B  minna.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar þessum sveitum kærlega fyrir þátttökuna og vonast til að aðrir gaggar landsins girði sig í brók fyrir Gaggann 2016 og hefji þegar æfingar.

.