Taflfélag Reykjavíkur Íslandsmeistari unglingasveita



TR hirti öll gullin nema eitt

Taflfélag Reykjavíkur endurheimti Íslandsmeistaratitil í flokki unglingasveita eftir nokkra bið, en A-lið félagsins vann sanngjarnan sigur á Íslandsmótinu sem fram fór í Garðabænum í gær.  Ekki nóg með það, heldur átti TR bestu B-, D-, E- og F-sveitina; einungis gullverðlaun C-sveita gengu félaginu úr greipum.

 

Taflfélag Reykjavíkur mætti með stærri hóp en nokkru sinni fyrr, en 28 krakkar tóku þátt fyrir hönd félagsins, sem er tvöfalt fleiri en í fyrra og fjórum krökkum meira en árið 2011, en þá mætti félagið til leiks með 5 sveitir og var það met þá.  Nú stillti TR upp sex sveitum sem stóðu sig allar vel.

 

Sérstaklega var gaman að sjá hvað þáttur stúlkna mikill, en 9 stúlkur tefldu fyrir félagið, eða um 1/3 hópsins.  Er þetta stærra hlutfall, heldur en hlutfall stúlkna meðal iðkenda almennt í skákinni og gefur vonandi fyrirheit um fjölgun stúlkna í skákinni.  TR sendi jafnframt sérstaka stúlknasveit til leiks – og var raunar eina félagið sem gerði það – og voru liðskonur allar á aldrinum 6 til 7 ára.

 

Til viðbótar má nefna að á sama tíma og mótið fór fram laugardagsæfing í Taflfélagi Reykjavíkur, þar sem 26 krakkar tóku þátt.  Þannig að allt í allt voru 54 krakkar að tefla fyrir hönd félagsins eða á vegum þess, sem ber markvissri uppbyggingu unglingastarfs TR fagurt vitni.

 

A-sveit TR vann sanngjarnan sigur.  Hún hlaut 23,5 vinning af 28 mögulegum og varð 2,5 og 3 vinningum á undan helstu keppinautum sínum; GM Helli-A og Fjölni-A.  Sveitin vann allar viðureignir sínar utan að hún gerði jafntefli við Fjölni-A.

Vignir Vatnar Stefánsson leiddi A-sveitina og vann allar sínar skákir, utan eina, en hann mætti ofjarli sínum í Oliver Aron Jóhannssyni, 1.borðsmanni Fjölni-A.  Að öðru leyti tefldi Vignir Vatnar af miklu öryggi og undirritaður var sérstaklega ánægður með sannfærandi sigurskák hans gegn hinum efnilega 1.borðsmanni GM-Helli-A, Hilmi Frey Heimissyni.

“Ísmaðurinn með stáltaugarnar,” Gauti Páll Jónsson, var afar sannfærandi á 2. borði og hefði fengið fullt hús, ef hann hefði fundið réttu leiðina í peðsendatafli gegn Dawid Kolka hjá GM-Helli-A, en skákin endaði í jafntefli.  Að öðru leyti var frammistaða Gauta til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað hann tefldi af verðskulduðu sjálfsöryggi.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir komst ekki almennilega í gang á 3. borði fyrr en eftir hléið, en þá tókst henni að ná sér í morgunverð.  Eftir það tefldi hún af miklu sjálfsöryggi, en það er skoðun undirritaðs að Veronika sé betri skákmaður en hún geri sér sjálf grein fyrir og hún þurfi kannski bara að leyfa sér að hafa trú á því.  Sérstaklega var eftirtektarvert hvernig Veronika vann sannfærandi sigur á Felix Steinþórssyni í GM-Helli-A, en þar tefldi Veronika miðtaflið af hugvitssemi og sjálfsöryggi.  Fyrr í mótinu hafði Veronika tapað 2 skákum, fyrst og fremst vegna tímahraks, en þessa skák hóf hún 5 mínútum of seint!

Björn Hólm Birkisson var eini nýi A-liðsmaðurinn, en “nýliðinn” leysti hlutverk sitt vel af hendi og hlaut 6 vinninga úr 7 skákum.   Skák hans við Hilmi Hrafnsson í Fjölni-A var áhugaverð og lærdómsrík.  Fyrst vann Björn mann sem gaf Hilmi kost á að komast í sókn, síðan gerði Björn mistök þegar hann reyndi að næla sér í peð í viðbót í stað þess að einfalda taflið og vinna verðskuldaðan sigur og missti manninn til baka.  Við tók jafnteflislegt endatafl, en Björn reyndist sterkari á klukkunni í miklu tímahraki beggja.  Reyndist þetta mjög mikilvægur sigur fyrir liðið, sem hefði ella tapað einu viðureign sinni.

Þar sem undirritaður var liðsstjóri A-liðsins, gat hann ekki fylgst jafn vel með öðrum liðum, en þar sem hann sá til sá hann að krakkarnir voru að tefla af mikilli einbeitingu og áhuga.  Leifur Þorsteinsson leiddi B-liðið, en hann hefur lítið teflt síðastliðin tvö ár.  Hann sýndi þó að hann hefur engu gleymt og tapaði einungis fyrir sterkustu mönnum mótsins, þeim Oliver Aron og Vigni Vatnari.  Svava, systir Leifs, var einnig að tefla á sínu fyrsta móti í langan tíma og stóð sig jafnframt með prýði, en hún hlaut 3,5 vinning af 7 á 4. borði í D-liðinu, sem hlaut einmitt gullverðlaun sem besta D-liðið.  Ekki er hægt að sleppa því að minnast á þátt Sólrúnar Elínar Freygarðsdóttur, sem tefldi á 1. borði fyrir E-liðið og hlaut 4,5 vinning úr 5 skákum og missti í raun niður unna skák í jafntefli með því að patta.

Þrátt fyrir að þessi sigurganga TR-liðanna sé vissulega ánægjuleg og hvetjandi, bæði fyrir krakkana og okkur, aðstandendur barna- og unglingastarfsins, vill undirritaður samt koma á framfæri þeirri skoðun sinni að mót þetta er fyrst og fremst góð æfing.  Nokkrir krakkanna hlutu hér mikla reynslu í mótataflmennsku, eins og liðsmenn F-liðsins, sem voru allt stúlkur á aldrinum 6 til 7 ára.  Upprennandi skákprinssessur þar á ferðinni og afsprengi hinna velheppnuðu stúlknaæfinga á laugardögum sem Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir hefur haldið utan um af sinni alkunnu alúð.  Liðsmenn E-liðsins og sumir liðsmanna D-liðsins voru sömuleiðis að safna mikilvægum augnablikum í reynslubankann, en á þessu móti er teflt með umhugsunartímanum 15 mínútur á skák, sem er ný reynsla fyrir mörgum þeirra.

Eftir verðlaunaafhendingu mótshaldara var haldinn sérstakt TR-lokahóf og við það tilefni fengu Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Leifur Þorsteinsson viðurkenningu, en þau eru orðin 15 ára og verða ekki gjaldgeng í þetta mót á næsta ári.  TR þakkar þeim fyrir glæsilegt framlag í gegnum árin og leitin af arftökum þeirra er í fullum gangi á hverjum laugardegi í Faxafeni.

Eftirfarandi glæsilegu fulltrúar tefldu fyrir hönd Taflfélags Reykjavíkur

TR-A Íslandsmeistarar 23,5v

  1. Vignir Vatnar Stefánsson 6v af 7
  2. Gauti Páll Jónsson 6,5 af 7
  3. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 5 af 7
  4. Björn Hólm Birkisson 6 af 7

TR-B

  1. Leifur Þorsteinsson
  2. Bárður Örn Birkisson
  3. Mykhaylo Kravchuk
  4. Jakob Alexander Petersen

vm Guðmundur Agnar Bragason

TR-C

  1. Þorsteinn Magnússon
  2. Þorsteinn Freygarðsson
  3. Robert Luu
  4. Davíð Dimitry Indriðason

vm Sævar Halldórsson

TR-D

  1. Mateusz Jakubek
  2. Ólafur Örn Olafsson
  3. Sagita Rosanty
  4. Svava Þorsteinsdóttir

TR-E

  1. Sólrún Elín Freygarðsdóttir
  2. Páll Ísak Ægisson
  3. Alexander Björnsson
  4. Mir Salah

vm Hubert Jakubek

TR-F

  1. Freyja Birkisdóttir
  2. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir
  3. Vigdís Tinna Hákonardóttir
  4. Karítas Ólöf Ísfeld Hafsteinsdóttir

vm Marsibil Þóra Ísfeld Hafsteinsdóttir

  • Myndir
  • Chess-Results

Pistill: Torfi Leósson

Myndir: Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir