Gunnar Erik efstur á Páskaeggjamóti TR



Sextíu og níu börn fædd á árunum 2006-2013 tefldu á Páskaeggjamóti Taflfélags Reykjavíkur sem haldið var föstudaginn 12.apríl. Verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin, en einnig voru veitt tvenn árgangaverðlaun; ein piltaverðlaun og ein stúlknaverðlaun. Alls biðu 19 medalíur og 21 páskaegg á verðlaunaborðinu eftir því að skorið yrði úr um réttmæta eigendur þeirra. Spennan var því mikil í skáksalnum allt til loka.

Er upp var staðið hafði Gunnar Erik Guðmundsson reynst öðrum fremri. Gunnar Erik vann allar sex skákir sínar. Fimm fræknir skákmeistarar framtíðarinnar nældu sér í 5 vinninga og því þurfti að grípa til stigaútreiknings til að skera úr um hverjir hrepptu silfur og brons. Eftir nokkrar reiknikúnstir mótshaldara lá fyrir að Batel Goitom Haile hreppti 2.sætið. Í 3.sæti varð Benedikt Briem. Önnur skákbörn með 5 vinninga voru Aron Örn Hlynsson, Iðunn Helgadóttir og Bjartur Þórisson.

20190412_190134

Árgangaverðlaun:

  • 2013: Katrín Ronja Stefánsdóttir og Birkir Hallmundarson.
  • 2012: Emilía Embla B. Berglindardóttir og Jón Louie.
  • 2011: Nína Vala Ásgeirsdóttir og Jósef Omarsson.
  • 2010: Guðrún Fanney Briem og Óli Steinn Thorstensen.
  • 2009: Bjartur Þórisson.
  • 2008: Katrín María Jónsdóttir og Aron Örn Hlynsson.
  • 2007: Batel Goitom Haile og Gunnar Erik Guðmundsson.
  • 2006: Benedikt Briem.

Páskaeggjamótið var jafnframt undanrásir fyrir Barna-Blitz þar sem þrjú efstu sætin gáfu sæti í úrslitum. Þetta voru síðustu undanrásirnar og höfðu alls 7 keppendur í mótinu þegar tryggt sér þátttökurétt. Síðustu þrjú sætin í úrslitunum komu í hlut þessara þriggja skáksnillinga:

  • Batel Goitom Haile
  • Bjartur Þórisson
  • Einar Dagur Brynjarsson.

Að loknu móti fengu allir keppendur súkkulaðiglaðning. Allar nánari upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu mótsins fá finna á Chess-Results.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra barnanna sem tefldu í mótinu og gerðu daginn jafn skemmtilegan og raunin varð. Við hlökkum til næstu páskaeggjaveislu að ári. Gleðilega páska!