Guðmundur í 32.-51. sæti í Andorra



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2444) hafnaði í 32.-51. (34) sæti í opnu alþjóðlegu móti í Andorra sem lauk á sunnudag. Guðmundur fékk 5,5 vinning úr níu umferðum, vann fimm skákir, tapaði þremur og gerði eitt jafntefli. Árangur hans jafngildir 2384 ELO stigum og lækkar hann lítillega á stigum. Tap í lokaumferðinni dróg Guðmund nokkuð niður en í næstsíðustu umferðinni gerði hann gott jafntefli við argentínska ofurstórmeistarann Fernando Peralta (2622).Þegar styrkleiki andstæðinga Guðmundar í mótinu eru skoðaður kemur vel í ljós einn af helstu ókostum hins svissneska pörunarkerfis sem í grófum dráttum virkar þannig að keppendum með jafnmarga vinninga er skipt í tvo hópa eftir stigum og síðan mætast stigahæstu keppendur hvors flokks fyrir sig og síðan koll af kolli. Þetta veldur því að gjarnan er gífurlegur styrkleikamunur á keppendum í viðureignum fyrstu umferðanna og þá geta stigasveiflur andstæðinga verið miklar líkt og sjá má hjá Guðmundi þar sem ELO stig andstæðinga hans sveifluðust gjarnan um 300-500 stig á milli umferða.Fyrir skákmenn sem eru á áfangaveiðum getur þetta fyrirkomulag því verið þeim erfitt, sérstaklega þegar mót telja aðeins níu umferðir – mun betra er þegar umferðir eru tíu eða ellefu. Ástæðan er sú að fyrstu umferðirnar fara í að “tefla sig upp”, þ.e. byrja þarf á að leggja keppendur sem eru mjög stigalágir miðað við umrædda áfangaveiðara. Þegar því er lokið verða andstæðingarnir sterkari og þá ríður á að ná fram hagstæðum úrslitum gegn þeim en ef það mistekst getur viðkomandi dottið mjög langt niður og þarf jafnvel aftur að “tefla sig upp”.Þetta er raunar það sem gerðist hjá Guðmundi í ofangreindu móti. Venju samkvæmt fékk hann stigalága andstæðinga í fyrstu tveimur umferðunum þar sem sá stigahærri hafði 2157 stig. Eftir að klára þessa tvo “skyldusigra” mætti Guðmundur skyndilega stórmeistara með 2580 stig í þriðju umferð. Tap gegn honum þýddi að Guðmundur þurfti að endurtaka leikinn síðan úr fyrstu umferðunum þó svo að andstæðingar næstu tveggja umferða hafi verið ívið stigahærri (2183 og 2228).Eins og við var að búast vann Guðmundur báðar viðureignirnar og mætti síðan stórmeistara með 2525 stig í sjöttu umferð. Ekki náði Guðmundur að klækja á spænska stórmeistaranum og í sjöundu umferð mætti hann keppanda með 2160 stig. Sigur þar þýddi að aftur rauk Guðmundur upp og mætti þriðja stigahæsta keppanda mótsins í næstsíðustu umferð. Eins og fyrr segir varð niðurstaðan gott jafntefli í þeirri viðureign en engu að síður var andstæðingur níundu umferðar mun stigalægri með 2298 stig þó alþjóðlegur meistari sé.Opin mót hafa vissulega sína kosti, til dæmis fá stigalágir keppendur tækifæri til að spreyta sig gegn mun sterkari skákmönnum og gjarnan er töluvert af óvæntum úrslitum í slíkum mótum. Hinsvegar er hægt að færa rök fyrir því að þessi mót henti illa áfangaveiðurum eins og komið hefur fram, sérstaklega þegar um er að ræða níu umferða mót og hið hefðbundna pörunarfyrirkomulag svissneska kerfisins er notað. “Hröð” pörun eða flýtipörun hefur nokkuð verið í umræðunni en tilgangur hennar er að efstu menn mætist fyrr en ella og að færri keppendur hafi fullt hús vinninga eftir fyrstu tvær umferðirnar.Í grófum dráttum virkar flýtipörun þannig að fyrir fyrstu umferð er keppendum skipt í tvo styrkleikaflokka líkt og venjulega. Síðan er “vinningi” bætt við keppendurnar í efri flokknum og flokkunum tveimur raunverulega aftur skipt þannig að úr verði fjórir flokkar, þ.e. í fyrstu umferð mætast annars vegar keppendur í efri flokknum sem hafa “vinning” og hinsvegar keppendur í neðri flokknum án vinnings. Þetta fyrirkomulag fækkar keppendum með fullt hús vinninga eftir tvær umferðir um u.þ.b. helming og þannig minnkar styrkleikamunurinn á milli keppenda í næstu umferðum.Guðmundur lætur hinsvegar ekki opin mót aftra sér frá þátttöku enda er hann með eindæmum virkur skákmaður og hefur verið í miklum skákvíking að undanförnu og þá má heldur ekki gleyma að hann nældi sér í stórmeistaraáfanga í Opna skoska meistaramótinu árið 2009 en það er, eins og nafnið gefur til kynna, opið mót líkt og þau mót sem Guðmundur tekur þátt í þessar vikurnar.Næsta mót á dagskrá hjá Guðmundi er opið alþjóðlegt mót í Badalona dagana 2.-10. ágúst. Þó að mótið sé opið í þeim skilningi að öllum er heimil þátttaka er það engu að síður flokkaskipt þar sem keppt er í þremur flokkum og teflir Guðmundur í A-flokki þar sem hann 12. í stigaröðinni af ríflega 70 keppendum þegar þetta er skrifað. Sem stendur eru yfir 200 keppendur skráðir til leiks í mótið.

  • Heimasíða mótsins í Andorra
  • Chess-Results (Andorra)
  • Heimasíða mótsins í Badalona
  • Chess-Results (Badalona)