Gauti Páll sigraði á fyrsta Þriðjudagsmóti ágústmánaðarEkkert minnkar þátttakan á Þriðjudagsmótunum. Síðastliðinn þriðjudag mættu 40 til að etja kappi í atskák; þar af átta sem höfðu einhvern tímann farið með sigur af hólmi á Þriðjudagsmóti. Stigahæstu keppendurnir, Gauti Páll Jónsson og Andrey Prudnikov, gáfu hins vegar engin færi á sér og tefldu að lokum hreina úrslitaskák um efsta sætið í 5. og síðustu umferð. Þar virtist allt með kyrrum kjörum framan af og báðir virtust ætla að tefla traust og sýna enga áhættuhegðun. Svo fór þó að Gauti sem var með hvítt, náði upp spili á kóngsvæng og Andrey fann ekki réttu vörnina og laut í dúk. Fimm deildu svo með sér sætum 2 – 6 en efstur þeirra á stigum Andrey Prudnikov. Verðlaun fyrir bestan árangur skv.  frammistöðustigum féllu hins vegar í hlut Óttars Bergmann sem stigalaus náði 6. sætinu með 3½ vinning.

Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.

Næsta atskákmót verður þriðjudagskvöldið 8. ágúst og hefst að venju kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fimm umferðir, tímamörk eru 10 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma.