Framundan hjá Taflfélagi Reykjavíkur



Þegar vetur konungur virðist genginn í garð er ekki úr vegi að líta á hvað er framundan í mótahaldi félagsins.  Vetrarmót öðlinga er nýhafið og fer önnur umferð fram næstkomandi miðvikudagskvöld en að venju er teflt í húsnæði T.R. að Faxafeni 12 og eru áhorfendur velkomnir.  Heitt á könnunni!

 

2. og 3. desember fara fram Jólaskákmót T.R. og Skóla- og frístundasviðs, yngri flokkur fyrri daginn og eldri flokkur þann seinni.  Metþátttaka var í yngri flokki í fyrra þegar Rimaskóli sigraði bæði í opnum flokki og stúlknaflokki.  Rimaskóli sigraði einnig í eldri flokki en sveit Engjaskóla varð efst stúlknasveita.

 

27. desember fer fram hið árlega jólahraðskákmót félagsins.  Kjörið mót til að líta á mitt í öllum hátíðleika jólanna.  Ágætis þátttaka er gjarnan á jólahraðskákmótinu og í fyrra tóku þrjátíu skákmenn þátt.  Nýkrýndur skákmeistari T.R., Daði Ómarsson, sigraði með yfirburðum en hinn ungi og efnilegi Vignir Vatnar Stefánsson varð annar ásamt Arnaldi Loftssyni.

 

Kornax mótið – Skákþing Reykjavíkur hefst svo á þrettándanum en mótið er það stærsta í árlegu mótahaldi skákfélaganna og hafa um 70 skákmenn tekið þátt síðustu ár.  Í fyrra urðu fjórir skákmenn efstir og jafnir; Bragi og Björn Þorfinnssynir, Guðmundur Kjartansson og Ingvar Þór Jóhannesson.  Svo fór að Björn hafði betur í aukakeppni og er því núverandi Skákmeistari Reykjavíkur.  Líkt og undanfarin ár verður móthald allt hið veglegasta og verðlaun glæsileg.

 

Hraðskákmót T.R. fylgir í kjölfarið á Skákþinginu þann 27. janúar en í fyrra urðu Davíð Kjartansson og Gunnar Freyr Rúnarsson efstir og jafnir.  Davíð varð ofar á stigum og er því núverandi Hraðskákmeistari Reykjavíkur.

 

Það er síðan ástæða fyrir forsvarsmenn fyrirtækja og stofnanna að taka 1. febrúar frá því þá fer fram Skákkeppni vinnustaða.  Félagið endurvakti þessi keppni í fyrra og er um liðakeppni að ræða en nánara fyrirkomulag verður auglýst síðar.

 

11. febrúar fer fram Reykjavíkurmót grunnskólasveita sem T.R. og SFS standa að.  Sveit Laugalækjarskóla sigraði í fyrra eftir spennandi keppni þar sem aðeins munaði 2,5 vinningi á fjórum efstu sveitunum.  Þrjátíu sveitir tóku þátt svo það var mikið fjör í Faxafeninu.

 

Skömmu á eftir eða 17. febrúar fer fram Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur en mótið er jafnframt Stúlknameistarmót Reykjavíkur.  Mótið er opið börnum og unglingum 15 ára og yngri og er einstaklingskeppni.  Jón Trausti Harðarson er núverandi Unglingameistari og Svandís Rós Ríkharðsdóttir Stúlknameistari.  Líkt og önnur ungmennamót var mótið mjög fjölmennt með á sjötta tug keppenda.

 

1. og 2. mars tekur T.R. þátt í síðari hluta Íslandsmóts skákfélaga þar sem félagið er í toppbaráttunni svo að miklu verður að keppa.

 

Þegar nálgast fer hlýnandi veður hefst Skákmót öðlinga þann 13. mars en mótið er opið öllum fertugum og eldri.  Spurning er hvort farið verði að nefna mótið „Vormót öðlinga“ þar sem félagið hóf nýverið að halda annað öðlingamót að vetri sem hefur fengið góðar viðtökur.  Mótið er einkar hentugt þeim sem eiga erfitt með að tefla oft í viku því umferðir fara fram vikulega.  Núverandi Öðlingameistari er Þorvarður Fannar Ólafsson.

 

Síðasta mótið á mótaáætlun félagsins er síðan Hraðskákmót öðlinga sem fylgir í kjölfarið þann 8. maí.  Sigurvegari síðasta árs var Tómas Björnsson.

 

Á vef T.R. má nálgast mótaáætlunina í heild sinni ásamt myndum frá mótahaldi félagsins.  Einnig eru þar fluttar fréttir um gang mála ásamt öllum úrslitum og ýmsu öðru.  Fyrirspurnir má senda á taflfelag@taflfelag.is og er þeim svarað að vörmu spori.  Að auki má minna á laugardagsæfingarnar sem ætlaðar eru börnum og unglingum.  Nánari upplýsingar um æfingarnar má finna hér.