Flækjur og fórnir í 7.umferð Skákþingsins



Í gær var tefld 7.umferð í Skákþingi Reykjavíkur. Líkt og í fyrri umferðum höfðu áhorfendur úr nægum efnivið að moða til skrafs og skeggræðna á kaffistofunni. Mikið var um óvænt úrslit, tveir titilhafar urðu að játa sig sigraða og ungviðið sýndi takta. Það sem einkenndi þessa umferð þó fyrst og fremst voru kyngimagnaðar taflstöður sem komu upp á fjölmörgum borðum –margar á sama tíma í kringum tímamörkin. Þurftu áhorfendur að hafa sig alla við að hlaupa á milli borða til að missa ekki af neinu. Virtist á stundum sem auðveldara væri að átta sig á tilgangi lífsins heldur en að skilja sumar þær flóknu taflstöður sem komu upp víða í skáksalnum.

Á 1.borði stýrði Rimaskólaundrið Oliver Aron Jóhannesson (2170) hvítu mönnunum gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni (2492). Úr varð afar vönduð og hraustleg spennuskák þar sem með öllu var óljóst hver endalokin yrðu. Er bardaginn náði hámarki í tímahrakinu flykktust áhorfendur að borðinu og var fjöldinn slíkur að minnti á mý á mykjuskán. Sú samlíking er ekki alveg úr lausu lofti gripin því er Oliver sagði skilið við skiptamun til að virkja léttu menn sína, á mjög krítísku augnabliki í tímahrakinu, þá þótti mörgum áhorfandanum sem svarta staðan tæki að lykta illa. En Stefán seildist þá djúpt í stórmeistarapyngju sína og gróf upp nokkra vandaða varnarleiki sem bættu stöðu hans jafnt og þétt, eða allt þar til bætur Olivers fyrir skiptamuninn voru illgreinanlegar. Stórmeistarinn gerði svo gott betur og vann skákina af miklu harðfylgi og seiglu. Þrátt fyrir ósigurinn getur Oliver borið höfuðið hátt því í þessum bardaga var engin leið að sjá að á þessum tveimur skákmönnum muni 322 skákstigum, líkt og alþjóðlega skáksambandið FIDE heldur staðfastlega fram.

Snemma tafls á 2.borði gaf ísfirski ferðalangurinn Guðmundur Gíslason (2315) eftir miðborðið með svörtu og lenti í kjölfarið í beyglu gegn silungsveiðimanninum Jóni Viktori Gunnarssyni (2433). Jón Viktor hefur hingað til ekki lagt það í vana sinn að veiða og sleppa og á því varð engin breyting að þessu sinn. Jón Viktor vann skákina og trónir nú á toppnum við annan mann. Þó illa hafi farið fyrir Guðmundi að þessu sinni þá sló hann á létta strengi á kaffistofunni að lokinni skák, líkt og honum er einum lagið. Það magnaða við framgöngu Guðmundar í þessu móti er ekki bara skemmtileg og lifandi taflmennska, heldur sú einstaka staðreynd að hann ferðast ríflega 800 kílómetra í viku hverri til þess að setjast við skákborðið. Það er leitun að skákmanni í heiminum sem leggur slíkt ferðalag á sig vikulega til þess að grípa í tafl. Guðmundur er jafnframt hvergi banginn við að setjast gegnt okkar sterkasta og efnilegasta skákungviði og leggja skákstig sín þannig að veði. Þetta viðhorf Guðmundar til skáklistarinnar mættu fjölmargir aðrir skákmenn taka sér til fyrirmyndar, íslensku skáklífi til gæfu og vegsauka.

Á 3.borði var tefld rosaleg rimma á milli alþjóðlegu meistaranna Dags Arngrímssonar (2368) og Björns Þorfinnssonar (2373). Svarta varnarvirki Björns varð fyrir þungri árás Dags um tíma og voru áhorfendur á einu máli um að eitthvað yrði undan að láta. En þó sókn Dags væri álitleg þá var Björninn ekki unninn. Björn er ekki einungis flinkur sóknarskákmaður, því í þessari skák varðist hann fimlega tilburðum Dags. Það sem meira var hann stóð af sér allar árásir sem dundu á honum og að lokum braust Björn út úr skelinni og snéri vörn í sókn. Sú sókn reyndist banabiti Dags. Gárungarnir voru þó á einu máli um að Dagur hlyti að hafa misst af vinningsleið fyrr í taflinu. Í pistli 6.umferðar var því velt upp hvort Björninn væri að rumska. Á því leikur enginn vafi lengur. Björninn er ekki aðeins að rumska, heldur er hann bæði glaðvaknaður og glorsoltinn.

Á 5.borði urðu heldur óvænt úrslit er Mikael Jóhann Karlsson (2077) stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn hinum sprenglærða alþjóðlega skákdómara Omari Salama (2282). Mikael leikur við hvurn sinn fingur í þessu móti og hefur nú unnið þrjár skákir í röð gegn sterkum andstæðingum. Með 46 stig í plús eftir sjö umferðir er Mikael líklegur til að ná yfir 2100 stig að móti loknu.

Einnig urðu óvænt úrslit á 6.borði er hinn hárprúði Vignir Vatnar Stefánsson (1959) gerði sér lítið fyrir og lagði vinnuþjarkinn og eldhúsborðssérfræðinginn Daða Ómarsson (2256). Þeir buðu upp á athyglivert tafl og flóknar taflstöður. Þó Vignir Vatnar ætti nokkuð undir högg að sækja á klukkunni lengst af skákar, þá fann hann nokkra öfluga leiki sem Daði fann ekki svör við. Mjög öflugur sigur hjá Vigni sem um þessar mundir gerir harða atlögu að 2000 stiga múrnum.

Spekingurinn húmoríski Gauti Páll Jónsson (1871) gerði jafntefli með svörtu gegn hraðskáktröllinu Jóhanni Ingvasyni (2126) í ævintýralegri skák þar sem gat að líta drottningarfórn og athygliverðar mátsóknir. Jóhann gerði sér lítið fyrir og fórnaði frúnni fyrir hættulega mátsókn þrátt fyrir að mínútur hans á klukkunni væru teljandi á fingrum annarrar handar. Gauti Páll varðist þó vel og komst piltur að lokum í endatafl með drottningu gegn hróki og biskupi Jóhanns. Jóhann gerðist þá klókur og bjó til frípeð sem takmarkaði hreyfigetu drottningar Gauta Páls nógu mikið til þess að keppendur sættust á jafntefli.

Af öðrum athygliverðum skákum yngri skákmanna má nefna að Bárður Örn Birkisson (1843) hélt auðveldlega jöfnu í tilþrifalítilli skák gegn Þór Valtýssyni (2000) og Róbert Luu (1358) var afar nálægt því að halda jöfnu gegn Vigni Bjarnasyni (1888) en varð þó að játa sig sigraðan undir lokinn. Jóhann Arnar Finnsson (1477) tefldi feykivel og vann Hörð Garðarsson (1792) og Þorsteinn Magnússon (1353) gerði jafntefli við Héðinn Briem (1464).

Þá tefldi hinn síungi Kristján Örn Elíasson (1831) vasklega gegn Birni Hólm Birkissyni (1911) og fórnaði biskupi á h7 fyrir afar vænlega sókn. Björn Hólm er þó mjög sterkur þegar kemur að því að verjast áhlaupi, líkt og nemendum Torfa Leóssonar er einum lagið, og varði hann mjög erfiða stöðu langt fram eftir kvöldi. Leikar tóku svo að æsast enn frekar þegar báðir voru komnir á 30 sekúndurnar. Að lokum tókst Kristjáni að landa sigrinum og gekk hann býsna sáttur frá borði, enda Björn Hólm á mikilli siglingu um þessar mundir og erfiður við að eiga.

Að loknum sjö umferðum er stórmeistarinn skeinuhætti Stefán Kristjánsson efstur með 6 vinninga. Jón Viktor Gunnarsson er honum jafn að vinningum en ögn lægri á stigum. Þrír skákmenn anda ofan í hálsmál þeirra félaga, því Dagur Ragnarsson, Mikael Jóhann Karlsson og Björn Þorfinnsson hafa 5,5 vinning.

8.umferð verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og munu allra augu beinast að skák 1.borðs en þar hefur Stefán hvítt gegn Jóni Viktori. Það verður fróðlegt að sjá leikáætlun þeirra félaga. Munu þeir berjast til síðasta taflmanns? Eða munu þeir tendra friðarpípuna og freista þess að vinna sínar viðureignir í síðustu umferð? Svör við þessum spurningum fást í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur á miðvikudagskvöldið. Skákklukkur verða ræstar af yfirveguðum en röggsömum skákstjórum Skákþingsins stundvíslega klukkan 19:30. Allir velkomnir!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur