Skákþingi Reykjavíkur lauk í gær með sigri alþjóðlega meistarans Jóns Viktors Gunnarssonar og Fide meistarans Einars Hjalta Jenssonar en þeir hlutu 8 vinninga hvor. Jón Viktor varð ofar á stigum og er því Skákmeistari Reykjavíkur í fimmta sinn og hafa aðeins Þröstur Þórhallsson og Ingi R.Jóhannsson heitinn unnið titilinn oftar. Í lokaumferðinni sigraði Jón Viktor Dag Ragnarsson og Einar Hjalti vann stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu.
Hinn fimmtán ára efnilegi Fjölnismaður, Oliver Aron Jóhannesson, hafnaði í 3. sæti með 7 vinninga og sýnir enn og aftur hvað í sig er spunnið. Í næstu sætum með 6,5 vinning komu Haraldur Baldursson, Mikael Jóhann Karlsson og Loftur Baldvinsson en Haraldur hlýtur verðlaun fyrir bestan árangur keppenda með minna en 2000 Elo stig en miðað er við íslensk skákstig í úthlutun stigaverðlauna.
Bestum árangri keppenda undir 1800 stigum náði KR-ingurinn Atli Jóhann Leósson sem hlaut 5,5 vinning. Hinir ungu og efnilegu tvíburar úr T.R., Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir, komu hnífjafnir í mark með 5 vinninga en Björn var sjónarmun á undan bróður sínum eftir stigaútreikning og hlýtur því verðlaun fyrir bestan árangur keppenda með minna en 1600 stig. Haukamaðurinn Brynjar Bjarkason varð efstur keppenda undir 1200 stigum með 4,5 vinning og í flokki stigalausra stóð Ólafur Hlynur Guðmarsson úr Skáksambandi austurlands sig best með 5 vinninga.
Skákþing Reykjavíkur var nú haldið í 83. sinn en það hefur farið fram óslitið síðan 1932 þegar Ásmundur Ásgeirsson varð fyrsti Skákmeistari Reykjavíkur. Þátttaka í mótinu var með besta móti og nálgast óðfluga þá miklu aðsókn sem var í lok níunda áratugar síðustu aldar og upphaf þess tíunda. Er það til marks um aukinn skákáhuga þjóðarinnar, öflugt barna- og unglingastarf og vel heppnaða breytingu á fyrirkomulagi mótsins. Aðeins var teflt tvisvar í viku og þá voru tvær yfirsetur leyfðar sem útrýmdi nánast frestun viðureigna sem hefur verið nokkur ókostur í mótahaldi.
Skákþingið var vel mannað og voru sex titilhafar skráðir þegar flautað var til leiks fyrir réttum mánuði en það voru ásamt Jóni Viktori, Einari Hjalta og Lenku, alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason og Fide meistararnir Sigurbjörn Björnsson og Davíð Kjartansson, Skákmeistari Reykjavíkur 2013. Sævar þurfti því miður frá að hverfa snemma móts vegna veikinda en hann á hrós skilið fyrir mikla ástundun í íslensku mótahaldi.
Þá voru mættir til leiks margir af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar og má þar nefna fyrrgreinda Oliver og Dag ásamt Mikael Jóhanni Karlssyni, Jóni Trausta Harðarsyni að ógleymdum Vigni Vatnari Stefánssyni sem, að öllum öðrum ólöstuðum, hlýtur að vera efnilegasti skákmaður þjóðarinnar um þessar mundir sé litið til ungs aldur hans en hann er aðeins tíu ára gamall. Þessir upprennandi meistarar myndu etja kappi við hóp reyndra kappa, s.s. Þorvarð Fannar Ólafsson og Júlíus L. Fiðjónsson, ásamt því að eiga við mikinn fjölda af enn yngri og efnilegum skákmönnum. Þess má geta að yngsti keppandinn á Skákþinginu var Adam Omarsson en hann er aðeins sex ára gamall. Adam hefur ekki langt að sækja skákhæfileikana því hann er sonur Lenku og Omars Salama.
Keppendalistinn var því góður þverskurður af þeirri skákflóru sem er til staðar í landinu þessi dægrin. Aðeins vantaði að fleiri fulltrúar kvenþjóðarinnar væru meðal þátttakenda en Lenka, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Nansý Davíðsdóttir héldu stoltar uppi merkjum hennar að þessu sinni.
Ekki þurfti mikla spámannsgáfu til að veðja á að baráttan myndi fyrst og fremst standa á milli Jóns Viktors og Einars Hjalta. Allir vita um þann styrk sem býr í Jóni, sem hefur þó ekki mikið teflt undanfarin ár, og Einar Hjalti hefur sýnt miklar framfarir síðan hann hóf aftur taflmennsku fyrir nokkrum misserum. Félagarnir tveir leiddu einnig saman hesta sína á síðastliðnu Haustmóti TR þar sem Einar hafði betur þegar upp var staðið. Spurningin var hvort næstu keppendur myndu ná að halda í við þá tvo en þar voru Sigurbjörn og Davíð líklegastir.
Svo fór að Jón Viktor og Einar Hjalti báru höfuð og herðar yfir aðra keppendur og snemma varð ljóst að það stefndi í einvígi þeirra í milli en þeir sömdu stutt jafntefli í innbyrðis viðureign um miðbik móts. Jón Viktor tefldi af miklu öryggi og ef frá er skilið óvænt jafntefli við Harald í áttundu umferð steig hann vart feilspor og sama má segja um Einar Hjalta sem sömuleiðis fór taplaus í gegnum mótið. Að loknum umferðunum níu höfðu þeir báðir hlotið 8 vinninga en Jón Viktor hlaut þremur stigum meira og telur þar mikið sigur hans gegn Davíð sem síðan gerði jafntefli við Einar Hjalta í áttundu umferð. Jón Viktor tryggði sér þar með sinn fimmta Reykjavíkurmeistaratitil sem hann vann fyrst fyrir sextán árum og síðast árið 2005. Þetta sýnir vel hversu lengi Jón Viktor hefur verið á meðal sterkustu skákmanna þjóðarinnar og hann er sannarlega vel að titilinum kominn.
Sú niðurröðun keppenda sem fylgdi á eftir hlýtur að vera með óvæntasta móti um nokkurt skeið. Þeir sem komu næstir í stigaröðinni náðu sér ekki almennilega á strik og þá var Sigurbjörn sérlega ólánsamur og virtist ekki ná sér aftur á flug eftir að hafa fallið á tíma gegn Þorvarði í fjórðu umferð. Þetta gaf þeim keppendum sem á eftir fylgdu byr undir báða vængi og Oliver Aron Jóhannesson kom eins og hraðlest eftir tap gegn Jóni Viktori í þriðju umferð og tapaði ekki skák eftir það. Hann kórónaði svo frammistöðuna með mjög góðum sigri á Davíð í lokaumferðinni og sat þar með einn í þriðja sætinu með 7 vinninga. Sannarlega glæsilegt hjá Oliver sem á framtíðina fyrir sér.
Sem fyrr segir komu síðan Haraldur, Mikael og Loftur með 6,5 vinning en Loftur vakti athygli fyrir góða frammistöðu á Íslandsmótinu sem fram fór í sumar. Af þessum sex efstu skákmönnum hækka Einar Hjalti og Loftur mest á stigum eða um 26 og 24 stig. Einar Hjalti heldur því áfram að rjúka upp stigalistann en hann bætti við sig öðru eins á Haustmótinu og nálgast hratt 2400 stiga-múrinn.
Það er til marks um yfirburði Jóns Viktors og Einars Hjalta að árangur þeirra samsvarar meira en 2400 Elo stigum en árangur næstu manna er um 250-300 stigum lægri. Harla óvenjulegt og ljóst að margir þeirra koma sterkari til leiks í næsta mót.
Eins og svo oft hækka margir af yngri keppendunum nokkuð á stigum en nokkrar af „gömlu“ kempunum fóru illa út úr viðureignum sínum við þá. Það er fátt mikilvægara fyrir unga og upprennandi skákmenn en að fá að spreyta sig gegn sterkari og reyndari mönnum. Það er mikið af jöxlum sem ávallt eru tilbúnir að mæta í mót og „leggja stigin sín undir“ gegn þeim óreyndari og fyrir það eiga þeir heiður skilinn.
Það er við hæfi að Jón Trausti hækki næstmest allra á stigum enda verið í mikilli framför að undanförnu. Þá virðist Örn Leó vera að eiga sterka endurkomu að skákborðinu eftir nokkurt hlé og hinir ungu TR-ingar Bárður Örn, Mykhaylo Kravchuk og Vignir Vatnar náðu sér einnig í ágætis stigagróða. Stigakóngur mótsins að þessu sinni er þó Spánverjinn Siurans Estanislau Plantada sem pistlahöfundur kann því miður ekki frekari deili á. Samkvæmt heimasíðu Fide komst hann inn á stigalistann 2010 en á engar skráðar skákir síðan þá. Því er hann með mjög háan svokallaðan K-stuðul, eins og aðrir sem fáar skákir hafa teflt, og því breytast stig hans hraðar en annarra til að byrja með.
Teflt var í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 og var skákstjórn í öruggum höndum Ólafs S. Ásgrímssonar og Ríkharðs Sveinssonar. Birna Halldórsdóttir reiddi fram glæsilegar veitingar meðfram mótahaldi og þá fór formaður félagsins, Björn Jónsson, hamförum með myndavélina og tók á þriðja hundrað myndir eins og honum einum er lagið. Síðast en ekki síst ber að nefna Kjartans þátt Maack en hann tryggði hratt og öruggt aðgengi að skákum hverrar umferðar sem birtust á vefnum samdægurs eða snemma næsta morgun. Kjartan lét þátttöku í mótinu ekki þvælast fyrir sér í innslættinum en gera má ráð fyrir að innsláttur hverrar umferðar taki u.þ.b. þrjár klukkustundir og að viðbættri 3-4 klukkustunda taflmennsku í hverri umferð er þetta sannarlega gott framtak hjá Kjartani.
Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra ríflega 70 skákmanna og skákkvenna sem þátt tóku í mótinu og vonast svo sannarlega til að sjá þau öll aftur að ári þegar stefnan verður sett á enn stærra Skákþing.
Verðlaunahafar
Skákmeistari Reykjavíkur 2014: Jón Viktor Gunnarsson
1.-2. sæti: Jón Viktor Gunnarsson, Einar Hjalti Jensson 8 vinningar
3. sæti: Oliver Aron Jóhannesson 7 vinningar
Bestur undir 2000: Haraldur Baldursson (1959) 6,5 vinningur
Bestur undir 1800: Atli Jóhann Leósson (1753) 5,5 vinningur
Bestur undir 1600: Björn Hólm Birkisson (1450) 5 vinningar
Bestur undir 1200: Brynjar Bjarkason (1157) 4,5 vinningur
Bestur stigalausra: Ólafur Hlynur Guðmarsson 5 vinningar
Mestu stigahækkanir
Siurans Estanislau Plantada 54 stig, Jón Trausti Harðarson 33, Einar Hjalti Jensson 26, Loftur Baldvinsson 24, Örn Leó Jóhannsson 20, Bárður Örn Birkisson 19, Ólafur Gísli Jónsson 18, Mykhaylo Kravchuk 17, Vignir Vatnar Stefánsson 15