Fjörug toppbarátta á Jólahraðskákmóti TR



Hún var einkar fjörug toppbaráttan á Jólahraðskákmóti TR að þessu sinni. Fyrir lokaumferð mótsins var formaður TR, Kjartan Maack, einn efstur með 7 vinninga. Þá kom til skjalanna ritari TR, Gauti Páll Jónsson, sem stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn formanninum í lokaumferðinni og setti þar með toppbaráttuna í uppnám. Grípa þurfti til reiknikúnsta til að skera úr um sigurvegara mótsins því fjórir luku tafli með 7 vinninga. Kjartan Maack reyndist hlutskarpastur, Örn Leó Jóhannsson hreppti 2.sætið og Guðni Stefán Pétursson það þriðja. Gauti Páll Jónsson varð að sætta sig við 4.sætið þrátt fyrir sigurinn góða í lokaumferðinni.

Þátttakendur voru 38 og voru tefldar 9 umferðir með tímamörkunum 4+2. Skákstjóri var Jon Olav Fivelstad. Nánari upplýsingar um lokastöðu og einstök úrslit má finna á Chess-Results.