Í gærkvöld fór fram fjórða umferð í Wow air vormóti Taflfélags Reykjavíkur. Afar hart var barist á öllum borðum í A flokki. Sannkölluð háspenna var á fyrsta borði þar sem Sigurður Daði Sigfússon og Hannes Hlífar Stefánsson sættust á endanum á skiptan hlut.
Þar varðist Sigurður Daði afar vel í flókinni stöðu og miklu tímahraki. Var hann ítrekað kominn niður á seinustu sekúndu þegar að hann lék!
Davíð Kjartansson stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Einari Hjalta Jenssyni sem fann ekki svar við öflugri mátssókn hótelstjórans geðþekka.
Mikið tímahrak og spenna einkenndi skák Nakamura banans Ingvars Þórs Jóhannessonar og nýjasta hnakkans okkar Dags Ragnarssonar. Ingvar lenti í miklu tímahraki fyrir tímamörkin og þurfti þá að verjast vænlegri kóngssókn Dags. Hann reyndist vandanum vaxinn og þegar sóknin rann út í sandinn réðu öflug frípeð hans úrslitum. Mjög skemmtileg skák.
Á fjórða borði vann Bragi Þorfinnsson skák sína gegn Örn Leó Jóhannessyni nokkuð sannfærandi.
Líkt og í annari umferð gegn Hrafni Loftssyni komst Þorvarður Fannar Ólafsson út í hróksendatafl peði yfir, nú gegn Jóni Trausta Harðarssyni en það dugði ekki til sigurs frekar en gegn Hrafni.
Björgvin Víglundsson tefldi afar frísklega gegn Oliver Aron Jóhannessyni, fórnaði peði fyrir mikið spil. Virtist staða hans afar vænleg á tímabili. En Oliver er enginn aukvisi í spilinu, varðist fimlega og snéri vörn í sókn og sigraði.
Á sjöunda borði sættust Hrafn Loftsson og Jóhann Ingvason á skiptan hlut.
Eftir fjórar umferðir er Hannes Hlífar efstur með 3.5 vinninga en næstir koma Davíð Kjartansson og Sigurður Daði Sigfússon með 3 vinninga.
Í B flokki varð jafntefli á þremur efstu borðunum. Halldór Pálsson virtist nálægt sigri í skák sinni gegn Sverri Erni Björnssyni sem varðist þó vel og uppskar hálfan vinning. Hallgerður Helga bjargaði jafntefli á stórglæsilegan hátt gegn Vigni Vatnar Stefánssyni. Stubburinn var með kolunnið tafl þegar hann féll í patt gildru landsliðskonunnar.
Tvíburarbræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir þrátefldu í miðtaflinu og virtust báðir býsna sáttir með þau málalok.
Stefán Bergsson heldur áfram að tefla fyrir augað, fórnaði peði snemma gegn Birki Kar Sigurðssyni fyrir fremur óljósar bætur en náði að flækja taflið. Það virðist ávísun á öruggan sigur Stefáns fái hann hartnær tapað tafl því hann snéri á pilt og sigraði örugglega.
Gauti Páll Jónsson ákvað að leika af sér biskup fyrir engar bætur gegn Jóhanni Óla Eiðssyni sem brá þó á það ráð að hirða ekki biskupinn heldur gefa tvö peð í staðinn og tapa örugglega. Skák hinna glötuðu tækifæra!
Engin breyting varð því á toppnum í B flokki. Halldór og Sverrir leiða með 3 vinninga af fjórum. Næstir þeim koma svo Bárður Örn og Vignir Vatnar með 2.5 vinninga.
Það verður stórviðureign í fimmtu umferð Wow air mótsins en þá mætast tveir stigahæstu menn mótsins, Hannes Hlífar og Bragi Þorfinnsson. Oliver Aron mætir Davíð meðan Einar Hjalti teflir við Þorvarð Fannar.
Í B flokki mætast Sverrir og Bárður Örn, meðan Vignir Vatnar teflir við Halldór Pálsson.
5. umferð fer fram næstkomandi mánudag.
Nánari upplýsingar um stöðu og pörun hér