Laugardaginn 16. maí fór fram vorhátíðarskákæfing TR í taflheimili félagsins í Faxafeni. Um 40 skákkrakkar úr öllum skákhópum félagsins mættu á sameiginlega lokaæfingu. Þetta var sannkölluð uppskeruhátíð, þar sem einnig fór fram verðlaunaafhending fyrir ástund og árangur á æfingum félagsins í vetur.
Skemmtilegt var hvað mæting var góð úr öllum skákhópunum: byrjendahópunum, laugardagsæfingahópnum, afrekshópnum og stelpuskákhópnum.
Salurinn var uppraðaður fyrir fjöltefli þegar krakkarnir tóku að streyma að fyrir kl. 14. Tveir gallharðir TR-ingar tefldu fjöltefli við hópinn: alþjóðlegi meistarinn og ríkjandi Skákmeistari Reykjavíkur Jón Viktor Gunnarsson tefldi fjöltefli við afrekshópinn og hinn 15 ára gamli Gauti Páll Jónsson tefldi svo við 28 krakka úr byrjenda-, laugardagsæfinga-, og stelpuskákhópnum.
Báðir skákmennirnir eru frábærar fyrirmyndir fyrir yngri krakkana. Jón Viktor sótti laugardagsæfingarnar hér á árunum áður, eins og svo margir, og er margreyndur kappskákmaður, en hann er m.a. sexfaldur Skákmeistari Reykjavíkur. Gauti Páll kom á sína fyrstu laugardagsæfingu 2008, þá 9 ára gamall og hefur hann verið iðinn við kolann alveg frá fyrsta degi! Hann sýndi snemma áhuga á að stúdera skákbækur og hefur gífurlegan áhuga á skák. Gauti Páll hefur undanfarin ár verið A-liðsmaður í unglingasveit TR, sú sveit er einmitt núverandi Íslandsmeistari unglingasveita.
En aftur að fjölteflinu! Hvernig er fjöltefli í TR með um 40 krökkum? Það er bara eins og draumur manns – hljóð í salnum og einbeiting á hæsta stigi! TR-krakkarnir kunna þetta! Þau sem voru fljótari en aðrir með sínar skákir fóru fram í miðrými og héldu áfram að tefla þar.
Þegar Gauti Páll var búinn með sínar skákir, fór fram verðlaunaafhending fyrir ástund og árangur á æfingum vetrarins. Afrekshópurinn hélt áfram með sínar skákir á móti Jóni Viktori, enda ekkert gefið eftir!
Hér að neðan er listi yfir þau sem fengu viðurkenningar í dag.
Verðlaun fyrir Ástundun voru veitt í þremur aldurshópum og einum stelpuhóp:
Aldursflokkur 6-7 ára, fædd 2007-2008, (1.-2. bekk). Frá byrjendahópi og laugardagsæfingahópi.
1. Einar Tryggvi Petersen, Svanur Þór Heiðarsson, Adam Omarsson (13 af laugardagsæf) 10 mætingarstig.
2. Gunnar Þórður Jónasson, Markús Hrafn Idmont Skúlason, Tómas Möller, Halldór Ríkharðsson (laugardagsæf.) 8 mætingarstig.
3. Skjöldur Þórisson 6 mætingarstig.
Aldursflokkur 8-9 ára, fædd 2005-2006, (3.-4. bekk).
1.Alexander Már Bjarnþórsson, Gabríel Sær Bjarnþórsson 15/15
2.Kristján Dagur Jónsson, Freyr Grímsson 13
3.Bjarki Freyr Mariansson, Björn Magnússon, Benedikt Þórisson 12
Aldursflokkur 10-12 ára, fædd 2002-2004, (5.-7. bekk).
1. Alexander Oliver Mai 13/15
2. Ottó Bjarki Arnar 8/15
3. Birkir Ísak Jóhannsson 7/15
Skákæfingar stúlkna.
1. Sólveig Freyja Hákonardóttir, Vigdís Tinna Hákonardóttir 15 mætingarstig.
2. Iðunn Helgadóttir 14 mætingarstig.
3. Benedikta Fjóludóttir 12 mætingarstig.
Þrenn verðlaun voru veitt fyrir samanlögð stig fyrir Ástundun og Árangur:
1. Alexander Oliver Mai 40 stig.
2. Gabríel Sær Bjarnþórsson 30 stig.
3. Kristján Dagur Jónsson 28 stig.
Eftir verðlaunaafhendinguna var svo „sparihressing“ áður en krakkarnir héldu út í sumarið – sem við trúum staðfastlega að verði mjög gott! Það var mikið fjör í hressingunni og mikið spjallað. Skemmtilegt hvað margir af krökkunum voru þegar farnir að hugsa um hvenær skákæfingarnar myndu hefjast aftur eftir sumarfríið. Þegar undirrituð svaraði því svo til að það yrði um mánaðarmótin ágúst/september, þá kom strax: já, en hvaða mánaðardag!?
Þar með er vetrarstarfið hjá T.R. á laugardögum lokið að sinni. Við umsjónarmenn og skákþjálfarar Kjartan, Torfi, Daði, Björn og Sigurlaug þökkum öllum krökkum sem mætt hafa á laugardagsæfingar T.R. í vetur fyrir ánægjulega samveru!
Einnig viljum við þakka öllum foreldrum og öðrum aðstandendum fyrir samstarfið í vetur.
Við hvetjum alla krakka til að “stúdera” skákheftin með fjölskyldunni í sumar og tefla að sjálfsögðu, ásamt því að gera aðra skemmtilega hluti sem tilheyra sumrinu!
Barna-og unglingastarf TR er nú komið í sumarfrí eftir viðburðarríkan, skemmtilegan og árangursríkan vetur. Alls hafa hátt á annað hundrað barna tekið þátt í skákæfingum TR í vetur og þær verið mjög vel sóttar.
Við sjáumst aftur eftir gott sumarfrí! Fylgist gjarnan með á heimasíðu T.R., www.taflfelag.is
Verið velkomin á skákæfingar T.R. veturinn 2015-2016 sem hefjast aftur um mánaðarmótin ágúst/september!
GLEÐILEGT SUMAR!
Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir