Einar Hjalti sigurvegari Haustmótsins



IMG_7515

Alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson er sigurvegari Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur 2015.  Einar hlaut 7,5 vinning í skákunum níu og er vel að sigrinum kominn en hann fór taplaus í gegnum mótið.  Í öðru sæti með 6,5 vinning var kollegi hans, Bragi Þorfinnsson, og þá var Oliver Aron Jóhannesson þriðji með 6 vinninga.  Bragi var efstur TR-inga og er því Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2015.

IMG_7516

Í B-flokki sigraði Guðlaug Þorsteinsdóttir með 7 vinninga en hún leiddi flokkin frá byrjun.  Með sigrinum tryggði Guðlaug sér sæti í A-flokki að ári.  Í öðru sæti með 6 vinninga var Vignir Vatnar Stefánsson og þriðji í mark með 5,5 vinning kom Agnar Tómas Möller.

IMG_7506

Gauti Páll Jónsson vann glæsilegan sigur í C-flokki en hann fékk fullt hús vinninga í skákunum níu og hækkar um 111 Elo-stig.  Gauti Páll teflir án nokkurs vafa í að minnsta kosti B-flokki að ári.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir kom næst með 6,5 vinning og þá Aron Þór Mai með 6 vinninga en Aron átti mjög gott mót og hækkar um hvorki meira né minna en 124 Elo-stig.

IMG_7519

Skemmtilegum opnum flokki lauk með sigri Arnars Milutins Heiðarssonar sem hlaut 7 vinninga.  Sannarlega glæsilegur og athyglisverður sigur í ljósi þess að Arnar var aðeins nr. 17 í stigaröð 20 keppenda.  Fyrir árangurinn hækkar Arnar um 125 Elo-stig og er því óumdeildur stigakóngur mótsins.  Í öðru sæti með 6,5 vinninga var Alexander Oliver Mai sem einnig átti afar gott mót og hækkar mikið á stigum.  Jafnir í 3.-4. sæti með 6 vinninga urðu svo Þorsteinn Magnússon og Jón Þór Lemery.

HTR_2015_R4-27

Lokaumferðin sem fram fór í gærkveld galt nokkuð fyrir þá staðreynd að allnokkrir keppendur virtust ekki hafa áttað sig á því að níunda og síðasta umferðin yrði tefld á þessum tíma þrátt fyrir góða kynningu á dagskrá mótsins.  Meðal þeirra sem misstu af lokaumferðinni var einmitt alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson en hann var í toppbaráttu fyrir umferðina.  Þá vantaði keppendur bæði í B- og C-flokki og nokkuð marga vantaði í opna flokknum.  Mótshaldarar vilja nota tækifærið og ítreka mikilvægi þess að keppendur kynni sér vel dagskrá móta sem þeir eru þátttakendur í.

IMG_7504

En lítum nú á helstu úrslit lokaumferðarinnar.  Í A-flokki hafði sigurvegari mótsins, Einar Hjalti, betur gegn Gylfa Þórhallssyni en Oliver Aron fékk frían vinning gegn Braga vegna fyrrgreindra ástæðna.  Oliver átti gott mót og tapaði aðeins gegn Einari.  Þá tefldi Björgvin Víglundsson vel í mótinu og lauk því með sigri á Erni Leó Jóhannssyni en Björgvin varð fjórði með 5,5 vinning og er nú á leið yfir 2200 Elo-stig en ekki er langt síðan hann snéri aftur að skákborðinu eftir margra ára hlé.

IMG_7522

Í heild var A-flokkurinn mjög skemmtilegur en eins og við var búist voru Einar Hjalti og Bragi í nokkrum sérflokki.  Stutt jafntefli voru hverfandi en af skákunum 45 lauk þriðjungi þeirra með skiptum hlut, 19 unnust á hvítt og 10 á svart.  Björgvin hækkaði mest á stigum (28) og þá Gylfi (20) og Örn Leó (20).

IMG_7507

Í B-flokki tapaði Guðlaug sinni fyrstu viðureign og var það annar af tvíburunum knáu, Bárður Örn Birkisson, sem knésetti hana.  Þrátt fyrir það er sigur Guðlaugar verðskuldaður en hún var í forystu frá fyrstu mínútu.  Hækkar hún um 50 Elo-stig fyrir árangurinn og virðist komin á beinu brautina á ný eftir öldudal að undanförnu.  Vignir Vatnar gerði jafntefli við Siguringa Sigurjónsson og tryggði sér með því annað sætið þar sem Agnar Tómas Möller mætti ekki til leiks.  Það er ánægjulegt að sjá Vigni Vatnar vera kominn í gang en hann hækkar um 67 Elo-stig og ljóst er að hann verður með um 2100 stig á næsta stigalista Fide.

IMG_7523

Eins og svo oft áður var B-flokkurinn mjög jafn og spennandi þar sem ekki munaði mörgum stigum á stigahæsta og stigalægsta keppandanum sem sést kannski vel á nokkuð háu jafnteflishlutfalli en tæpum helmingi viðureignanna lauk með skiptum hlut.

Toppbaráttan í C-flokki náði aldrei að vera spennandi, til þess var Gauti Páll einfaldlega einu númeri of stór fyrir flokkinn.  Gauti hélt öruggri forystu allan tímann og stakk aðra keppendur af en í lokaumferðinni lagði hann hinn unga og efnilega Róbert Luu.  Það er engu að síður vel af sér vikið hjá Gauta að vinna með fullu húsi en hann hækkar um 111 Elo-stig og stefnir nú hraðbyri að því að fara aftur yfir 1900 stig þar sem hann á miklu frekar heima.

HTR_2015_R1-2

Veronika Steinunn var sú eina sem veitti Gauta einhverja keppni en líkt og aðrir keppendur þurfti hún að horfa á eftir honum í reyknum.  Þrátt fyrir að vera í öðru sæti á Veronika enn mikið inni og einvörðungu tímaspursmál hvenær næsta stökk kemur.  Aron Þór Mai heldur áfram mikilli siglingu og hækkar sem fyrr segir mikið á stigum en hann var áttundi í stigaröð tíu keppenda.

Sigur Arnars Milutins í opna flokknum er sannarlega glæsilegur en sá ungi piltur er á hraðri uppleið ásamt mörgum þeirra sem kepptu í opna flokknum.  Alexander Oliver átti líka mjög gott mót og var í forystu lengi vel en þurfti að lokum að láta toppsætið af hendi eftir mikla baráttu.

HTR_2015_R4-42

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Haustmótinu fyrir að skapa með okkur enn eitt spennandi og skemmtilegt Haustmót.  Hér að neðan fylgir lítilein samantekt.  Sjáumst að ári!

A-flokkur

 1. AM Einar Hjalti Jensson 7,5v
 2. AM Bragi Þorfinnsson 6,5v
 3. Oliver Aron Jóhannesson 6v

B-flokkur

 1. Guðlaug Þorsteinsdóttir 7v
 2. Vignir Vatnar Stefánsson 6v
 3. Agnar Tómas Möller 5,5v

C-flokkur

 1. Gauti Páll Jónsson 9v
 2. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 6,5v
 3. Aron Þór Mai 6v

Opinn flokkur

 1. Arnar Milutin Heiðarsson 7v
 2. Alexander Oliver Mai 6,5v
 3. Þorsteinn Magnússon, Jón Þór Lemery 6v

Mestu stigahækkanir

Arnar Milutin Heiðarsson (125), Aron Þór Mai (124), Gauti Páll Jónsson (111), Alexander Oliver Mai (85), Vignir Vatnar Stefánsson (67).

Heildarúrslit

Skákirnar

Myndir má sjá hér að neðan