Davíð og Omar í sérflokki á KORNAX mótinu



Áttunda og næstsíðasta umferð Skákþings Reykjavíkur fór fram í gærkvöldi og var nokkuð um óvænt úrslit.  Fide meistarinn Davíð Kjartansson og Omar Salama, sem leiddu fyrir umferðina, unnu báðir sína andstæðinga og eru nú jafnir í efsta sæti með 7,5 vinning, 1,5 vinningi meira en næstu keppendur.  Davíð vann Daða Ómarsson og Omar vann Halldór Pálsson.  Segja má að Davíð og Omar beri höfuð og herðar yfir aðra keppendur en þeir gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign og hafa unnið allar hinar.  Frammistaða þeirra beggja samsvarar í kringum 2.500 Elo stigum.

 

Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson, sem sigraði Jóhann H. Ragnarsson, er í 3.-4. sæti með 6 vinninga ásamt hinum unga og efnilega norðlendingi, Mikaeli Jóhanni Karlssyni, sem gerði sér lítið fyrir og hafði betur gegn stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu.  Fimm keppendur koma næstir með 5,5 vinning.

 

Af öðrum úrslitum má nefna að Sigríður Björg Helgadóttir gerði jafntefli við Oliver Aron Jóhannesson, og sömuleiðis gerði Andri Steinn Hilmarsson jafntefli við Jón Úlfljótsson en Andri er stigalaus og hefur átt gott mót.  Þá vann Veronika Steinunn Magnúsdóttir Birki Karl Sigurðsson og Kristján Þ. Sverrisson vann Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur.  Fleiri athyglisverð úrslit mætti tína til en öll úrslit má finna á Chess-Results.

 

Níunda og síðasta umferð fer fram á föstudagskvöld og þá mætast Omar og Mikael á meðan Davíð glímir við annan norðlending, hinn margreynda Þór Valtýsson.  Þór er í harðri baráttu um bestan árangur keppenda undir 2000 skákstigum en hann hefur 5,5 vinning líkt og Vigfús Ó. Vigfússon og Haraldur Baldursson.  Í flokki keppenda undir 1800 stigum stendur Sigríður Björg best að vígi með 5,5 vinning, vinningi meira en næstu keppendur.

 

Í flokki keppenda undir 1600 stigum er baráttan mjög hörð en nokkrir keppendur hafa 4,5 vinning, þeirra á meðal TR-ingarnir ungu, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson.  Í flokki stigalausra hefur Andri Steinn vinningsforskot á næstu keppendur.  Rétt er að minna á að það eru íslensk skákstig sem gilda í flokkaverðlaunum.

 

Jóhann H. Ragnarsson hefur slegið inn skákir mótsins og má nálgast þær hér að neðan.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur síðustu ára
  • Myndir (JHR)
  • Skákir