Búið er að úthluta boðssætum fyrir A og B flokk Wow air mótsins sem hefst í kvöld. Að þessu sinni var ákveðið að gefa fjórum sem ekki höfðu tilskilin stig til að keppa í A flokki sæti.
Allir eru þessir skákmenn vel að sínu sæti komnir og hafa sýnt góða takta við skákborðið. Ungu strákarnar, Jón Trausti og Örn Leó eru í augljósri framför og fá hér kjörið tækifæri til að reyna sig í sterkum flokki. Hinir tveir, Jóhann og Björgvin eru síungir og verða bara betri með árunum. Þeim má helst líkja við góða Chianti 72. Jóhann hrellti margan stórmeistarann í nýafstöðnu Íslandsmóti skákfélaga, og Björgvin slátrað flestum heldri manna mótum í vetur. Gaman verður að sjá alla þessa öflugu skákmenn að tafli í Wow air mótinu.
Í B flokk fá sex skákmenn sem ekki hafa tilskilin stig að reyna sig.
Fáir eru jafnduglegir að mæta á skákmót og tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn og báðir mikil efni. Styrk Vignis Vatnars þekkja allir og hinn kókómjólkurþambandi Gauti Páll er til alls vís. Áhugi skákkennarans Birkis Karls er mikill og verður gaman að sjá hvort hann hafi lært eitthvað af eigin kennslu og bæti annars ágætan árangur í flokknum frá því í fyrra. Jóhann Óli hefur ekki teflt mikið undanfarið, en vonandi verður sæti hans í mótinu til þess að hann snúi af fullri festu til meiri skákiðkunar.
Taflfélag Reykjavíkur óskar öllum þessum skákmönnum sem og öðrum sem taka þátt góðs gengis!
Keppendur í A flokki má finna hér
Keppendur í B flokki má finna hér
Parað verður í byrjun umferðar í kvöld, en mótið hefst kl. 19.30