Á Þriðjudagsmótinu þann 21.maí, því áttunda í röðinni, varð Björgvin Víglundsson efstur með fullt hús, fjóra vinninga af fjórum mögulegum. Björgvin hefur oft lent í öðru sæti en vann nú Þriðjudagsmót í fyrsta sinn. Annar varð Jón Eggert Hallsson með þrjá vinninga og gerði hann sér lítið fyrir og lagði Gauta Pál Jónsson að velli.
Tíu skákmenn mættu á níunda Þriðjudagsmótið þann 28.maí. Þar varð Júlíus Friðjónsson efstur með fullt hús eftir góðan sigur með svörtu í enska leiknum í úrslitaskák gegn Kjartani Maack. Annar varð Kjartan með þrjá vinninga og þriðji varð Hörður Jónasson með 2,5 vinning.
Þriðjudagsmótin hafa fengið ágætar viðtökur hjá skákáhugamönnum og hefur þátttaka yfirleitt verið í kringum 10 manns. Gaman væri að sjá fleiri skákmenn yfir 2000 stigum tefla með.
Nú fara Þriðjudagsmótin í sumarfrí. Þó verða haldin tvö sumarmót með sama sniði síðustu þriðjudagana í júní og júlí. Næstu mót verða því:
- Þriðjudaginn 25. júní kl. 19:30
- Þriðjudaginn 30. júlí kl. 19:30
Mótin halda áfram vikulega frá og með þriðjudeginum 27. ágúst. Stjórn TR vonar að mótin festist í sessi og auki veg atskákar í íslensku skáksamfélagi.