Það voru ferskir skákmenn sem börðust um fyrsta sætið á Þriðjudagsmótinu í TR 25. maí síðastliðinn. Skák á það sammerkt með knattspyrnu og öðrum merkilegum íþróttagreinum að þar þarf margt að ganga upp í hvert sinn, óháð afrekum fyrri tíma og það þýðir að svokölluð óvænt úrslit eru hluti af leiknum (úrslitin eru reyndar oft óvæntari fyrir þá sem tapa en þá sem vinna en það er önnur saga). Og það gerðist einmitt á þriðjudaginn; í úrslitaskákinni börðust þeir Oddgeir Ottesen og Björgvin Ívarsson Schram um efsta sætið eftir að hafa báðir lagt stigahæstu menn mótsins í 3. umferð. Björgvin hafði betur í þeirri viðureign og tryggði sér þar með fjóra vinninga og verðskuldað efsta sætið. Björgvin varð jafnframt stigahástökkvari mótsins. Í öðru sæti varð síðan Oddgeir sem varð efstur fimm skákmanna með 3 vinninga.
Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.
Næsta Þriðjudagsmót verður 1. júní; það er það fyrsta í sumardagskránni og Þriðjudagsmót þar á eftir 15. júní. Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.