Aron Ellert Þorsteinsson sigraði á þriðjudagsmótinu þann 27. apríl með fullu húsi, fjórum vinningum af fjórum. Aron á ekki langt að sækja hæfileikana en hann er sonur Fide-meistarans Þorsteins Þorsteinssonar. Var Aron lykilmaður í sterkri skáksveit Laugalækjaskóla hér fyrir nokkrum árum.
Næstir í mótinu urðu þeir Gauti Páll Jónsson og Arnljótur Sigurðsson með þrjá vinninga. Aron lagði varaformann TR í hörku skák í síðustu umferð. Eftir flókið miðtafl fór maður fyrir borð hjá Gauta, og þrátt fyrir heiðarlega tilraun Gauta til að snúa við taflinu vann Aron nokkuð traustan sigur í framhaldinu. 11 skákmenn mættu til leiks að þessu sinni, eftir stutt Covid hlé.
Teflt verður upp á hvern þriðjudag í maí mánuði, en sumardagskráin verður rólegri, teflt annan hvern þriðjudag.
Næsta mót er því þriðjudagskvöldið 4. maí klukkan 19:30.
Úrslit og stöðu mótsins má nálgast á chess-results.