Þriðjudagsmót vikunnar var haldið við dáítið óvenjulegar aðstæður að þessu sinni. Vegna Reykjavíkurmóts grunnskólasveita í salarkynnum TR, var haldið yfir í húsnæði Skáksambands Íslands. Líf og fjör var auðvitað í húsnæðinu og þar að auki höfðu mótsþátttakendur líka aðgang, þeir sem vildu, að dásemdum Birnukaffis. Mótið varð spennandi og sviptingar á toppi sem á botni en Arnar Ingi Njarðarson lét framandi aðstæður ekkert hafa áhrif á sig og landaði sínum öðrum sigri á Þriðjudagsmóti í röð, með sigri á Aroni Ellert Þorsteinssyni í úrsltaskák í síðustu umferð. Þar með á Arnar möguleika á Þriðjudagsþrennunni en hingað til hefur aðeins Gauti Páll Jónsson náð henni. Í öðru sæti varð síðan Þorsteinn Magnússon sem jafnframt tryggði sér þar með verðlaun fyrir frammistöðustig. Jafnir í 3. – 4. sæti voru síðan hinn íslensk-franski Óli Róbert Hediddeche og Bandaríkjamaðurinn Colin Wheeler.
Öll úrslit og stöðu mótsins má nálgast hér.
Næsta Þriðjudagsmót verður 19. október næstkomandi, klukkan 19:30 að venju í félagsheimili TR, Faxafeni 12.