Blikar Atskákmeistarar Taflfélaga 2022!Skákdeild Breiðabliks unnu glæsilegan sigur á Atskákkeppni Taflfélaga 2022. Þetta er annað skiptið sem TR heldur þetta mót, og einnig í annað sinn sem Blikar vinna mótið. Eins og Halldór Grétar Einarsson liðsstjóri Breiðabliks benti réttilega á, þá er þetta raunverulega Íslandsmót, hér er lítið um erlenda málaliða eins og á Íslandsmóti skákfélaga.

attaafl_1

Átta taflfélög mættu til leiks og þar af þrjú með fleiri en eina sveit: Breiðablik með þrjár sveitir, TR og Fjölnir með tvær sveitir. Góð mæting og mikil stemming!

Samkvæmt reglum mótsins er það vinningafjöldinn sem réð úrslitum. Víkingaklúbburinn, sem lenti í 2. sæti, sendi sterkustu sveitina til leiks ef miðað er við eló-stig, og unnu fleiri viðureignir en Blikar. Þeir hlutu þó “aðeins” 40 vinninga í umferðunum níu, en Breiðablik 44 vinninga. Heimavarnarlið Taflfélags Reykjavíkur þurfti að láta 38 vinninga og 3. sæti duga. Gaman er að segja frá því að skákþjálfarar úr byrjenda, framhalds-og afreksflokki TR tefldu allir með A-sveit liðsins, ásamt nýjasta félagsmannum, henni Olgu Prudnykova frá Úkraínu.

attafl_2

Það sem gerir sigur Breiðaliks einkar sætan er að þónokkrir sterkir félagsmenn voru erlendis á EM ungmenna, en samt sendi liðið þrjár sveitir til leiks og vann mótið. Glæsilegt! A-sveitin var skipuð skákmönnum í kringum tvítugt, 2003 einkar sterkur árganur, ásamt nokkrum reynsluboltum. Góð blanda, og nánast “hreinsum” á efri og neðri borðum.

Mótsstjóri var Gauti Páll Jónsson og skákstjóri Ríkharður Sveinsson. Búast má við að einstaklingsúrslit úr mótinu munu birtast á chess-results á allra næstu dögum.

Hlekkur á mótið á chess-results.

attafl_3

Taflfélag Reykjavíkur þakkar fyrir áhugan á mótinu, og óskar Skákdeild Breiðabliks til hamingju með sigurinn! Einnig bendum við á ljósmyndir Torfa Þórs Tryggvasonar frá mótinu sem nálgast má á Facebooksíðunni Íslenskir skákmenn.

Myndirnar sem fylgja með þessari frétt tók Ríkharður Sveinsson.