Fréttin birtist fyrst á vef Skákfélagsins Hugin
Alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson sem tefldi fyrir Brim og Fide meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson sem tefldi fyrir Grillhúsið Tryggvagötu voru efstir og jafnir með 6,5 vinninga á 32. Borgarskákmótinu sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur mánudaginn 14. ágúst sl. Arnar var hálfu stigi hærri en Ingvar í fyrsta stigaútreikningi og því sigurvegari að þessu sinni með fyrirtækinu Brim sem hann tefldi fyrir. Þriðji var svo Björn Hóm Birkisson með 6v en hann tefldi fyrir KFC Ísland. Björn var eini titillausi keppandinn í sex efstu sætunum.
Fyrir lokaumferðina áttu fjórir keppendur möguleika á sigri en það voru Ingvar Þór Jóhannesson og Arnar Gunnarsson sem báðir voru með 5,5v og voru búnir að mætast og gera jafntefli í innbyrðis viðureign sinni en vinna aðra andstæðinga sína. Hinir tveir voru Helgi Ólafsson(Suzuki bílar) með 5v og Björn Hólm Birkisson einnig með 5v. Þeir tveir síðarnefndu þurftu að vinna skákir sínar í lokaumferðinn og jafnframt að treysta á hagstæð úrslit í öðrum viðureignum. Stigin voru svo líka að þvælast fyrir Birni Hólm þannig að hann gat aðeins gert ráð fyrir að geta náð 1.-2. sæti og öðru sæti á stigum. Í lokaumferðinni mættust annars vegar Helgi Ólafsson og Arnar Gunnarsson og hins vegar Ingvar Þór Jóhannesson og Daði Ómarsson (Íslandsstofa). Á meðan tefldi Björn Hólm við Bárð Örn Birkisson (Hótel Borg). Ingvar vann Daða og kláraðist sú skák fyrst af topp viðureignunum. Næst vann Björn Bárð og tryggði sér verðlaunasæti en jafnframt var ljóst að það dyggði ekki til sigurs fyrst Ingvar vann. Þá voru Helgi og Arnar eftir og þar hafði Arnar sigur í rafmagnaðri viðureign. Arnar Gunnarsson hafði unnið Borgarskákmótið fjórum sinnum áður bætti þar með við sínum fimmta sigri í Borgarskákmótinu. Arnar er einn af betri hraðskákmönnum landsins og sigursælasti skákmaðurinn í Borgarskákmótunum. Næstir honum koma Hannes Hlífar Stefánsson, Helgi Ólafsson, Helgi Áss Grétarsson, Jón Viktor Gunnarsson og Þröstur Þórhallsson með þrjá sigra í Borgarskákmótinu. Af þeim voru Helgi Ólafsson og Helgi Áss Grétarsson 5,5v (Borgun hf) einnig með að þessu sinni.
Mótið í ár var vel sótt en alls tóku 64 keppendur þátt að þessu sinni. Skráning í mótið fór hægt að stað en á sama tíma var skráning fyrirtækja í mótið með miklum ágætum, þannig að fram eftir morgni skákdags voru fleiri fyrirtæki skráð í mótið heldur en skákmenn. Það hefur ekki gerst að fleiri fyrirtæki hefi verið í mótinu en skákmenn síðan hætt var að byrja taflið kl. 15 á virkum degi og mótið fært aftur til kl. 16. Þegar líða tók að hádegi fór fjöldi skákmann loks fram úr fyrirtækjunum og þegar upp var staðið voru skákmennirnir 13 fleiri en fyrirtækin en bilið hefur ekki verið minna í mörg Herrans ár. Þetta er örugglega velmegunarmerki þannig að skákmenn hafa meira að gera í vinnunni en áður og forsvarsmenn fyrirtækja og stofnana viljugri að vera með.
Yfir sjötíu ára aldursmunur var á yngsta og elsta keppenda mótsins þeim Bjarti Þórissyni (2009) og Finni Kr Finnssyni (1935)(Guðmundur Arason smíðajárn) og stóðu þeir sig báðir með prýði. Yngri skákmenn settu að þessu sinni nokkurn svip á mótið með því að skipa tæpan þriðjung mótsins en þar fóru fremstir Björn Hólm Birkisson 6v og Dagur Ragnarsson (Grafia) 5v. Eins og oft áður var svo Lenka Ptácniková (Samhentir-Kassagerð) fremst af konunum með 4,5v
Nokkur fjöldi áhorfenda var á mótinu, þá aðalega túristar sem staddir voru í Ráðhúsinu og fylgdust spenntir með af pallinum. Túristarnir voru samt heldur færri á meðan á móti stóð en í fyrra, enda að þessu sinni teflt í þeim sal sem Íslandskortið er að jafnaði og því minna um að vera fyrir þá í Ráðhúsinu. Töflin voru samt jafnt vinsæl meðal þeirra fyrir skákmótið.
Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt, Reykjavíkurborgar fyrir að hýsa mótið, Skákfélaginu Hugin fyrir samstarfið og síðast en ekki síst þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu mótið.
Lokastaðan í chess-results.