Afrekshópur Taflfélags Reykjavíkur í keiluferð



Afrekshópur Taflfélags Reykjavíkur byrjaði vetrarstrafið með stæl síðasta laugardag, 21. september. Hópurinn hittist upp í Keiluhöll í Öskjuhlíðinni og spilaði keilu í um klukkutíma. Þátttakendur voru 16 börn og unglingar, þjálfarinn Daði Ómarsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, umsjónarmaður Barna-og unglingastarfs TR. Torfi Leósson þjálfari var fjarri góðu gamni vegna veikinda. 

 

Okkur þótti rétt að skipta þátttakendum að þessu sinni í hópa eftir stærð, en ekki eftir elostigum! En Gauti Páll hafði þó á orði að hann vildi fá Vigni í sinn hóp vegna elostiganna! Hópaskiptingin á brautirnar varð að lokum sem hér segir:

 

Hópur 1: “Stóru” strákarnir: Andri Már, Gauti Páll, Þorsteinn Freygarðsson og Daði.

Hópur 2: “Litlu” strákarnir: Davíð Dimitry, Mateusz Jakubek, Mykhaylo, Sævar og Vignir Vatnar.

Hópur 3: “Stelpurnar”: Donika, Sagita, Veronika og Sigurlaug.

Hópur 4: “Millistóru” strákarnir: Bárður Örn, Björn Hólm, Björn Ingi, Guðmundur Agnar, Þorsteinn Magnússon.

 

Allir þátttakendur sýndu snilldartakta og hér og hvar mátti sjá allar keilurnar falla um koll við mikil fagnaðarlæti! Einhverjar kúlur þrjóskuðust við og fóru of snemma ofan í hliðarrennurnar, en þá vara bara að spýta í lófana og treysta á næstu kúlu í næstu umferð! Ekki svo ósvipað skákinni!

 

Stemningin var góð og hóparnir fylgdust einnig með hvorum öðrum og spáð var í stigin á stigatöflunum. En þegar upp var staðið voru lokastigin ekki það mikilvægasta og enginn gerði þau að umræðuefni að leikslokum!

 

Um leið og við vorum búin í keilunni voru ostborgararnir tilbúnir. Allir gerðu sér máltíðina að góðu og spjölluðu saman um heima og geima.

 

Mikil ánægja var með þennan “hausthitting” og samveru Afrekshópsins og var mikill áhugi á að endurtaka þessa skemmtun við tækifæri. Greinilegt er að hópurinn er sterkur félagslega og mun vinna vel saman fyrir hönd félagsins í þeim liðakeppnum vetrarins sem framundan eru.

  • Myndir

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir