Afmælismót Jónasar Hallgrímssonar



 

MS Afmælismót Jónasar Hallgrímssonar í Ráðhúsi Reykjavíkur

 

Mót fyrir börn á grunnskólaaldri — Sunnudagur 16. nóvember kl. 14 — Mjög vegleg verðlaun — Skráið ykkur sem fyrst!

  Skákfélagið Hrókurinn og Taflfélag Reykjavíkur standa fyrir MS Afmælismóti Jónasar Hallgrímssonar í Ráðhúsi Reykjavíkur, sunnudaginn 16. nóvember kl. 14. Mótið er haldið á fæðingardegi þjóðskáldsins sem jafnframt er Dagur íslenskrar tungu. Mjög vegleg verðlaun eru á mótinu og má búast við flestum bestu og efnilegustu börnum og ungmennum landsins. Heiðursgestur við setningu mótsins verður frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

 

MS Afmælismót Jónasar Hallgrímssonar er ætlað börnum á grunnskólaaldri og er gert ráð fyrir 64 keppendum. Tefldar verða 7 umferðir með 7 mínútna umhugsunatíma. Fyrstu verðlaun eru 30.000 krónur, önnur verðlaun 20.000 og þriðju verðlaun 15.000. Verðlaun fyrir bestan árangur stúlkna er 10.000 kr.  Þá verða 4 heppnir keppendur dregnir út sem hljóta 5000 krónur hver. Þeim til mælum er beint til þátttakenda að mæta snyrtilega til fara, enda verður best klæddi keppandinn verðlaunaður sérstaklega með 5000 kr.

 

Veitt eru verðlaun og viðurkenningar fyrir bestan árangur í þremur aldursflokkum: 1.-3. bekk, 4.-6. bekk og 7.-10. bekk. Mjólkursamsalan mun sjá keppendum fyrir veitingum á mótsstað.

 

Það er Taflfélagi Reykjavíkur og Hróknum mikil ánægja að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) sem vafalaust má telja ástsælasta skáld Íslandssögunnar. Skák og skáldskapur, þessar miklu íþróttir hugans, hafa átt samleið á Íslandi frá öndverðu. Á dögunum stóðu TR og Hrókurinn fyrir glæsilegu Afmælismóti Einars Benediktssonar og er í ráði að minnast fleiri skálda með þessum skemmtilega hætti. Mjólkursamsalan hefur gegnum tíðina verið ötull bakhjarl skáklífs á Íslandi, og hefur líka markvisst beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins í rúmlega 20 ár.  Kjörorð MS í þeirri vinnu er Íslenska er okkar mál. Um árabil hafa verið birtir textar af ýmsu tagi á mjólkurumbúðum, ábendingar um gott málfar, útskýringar á orðtökum og fallega skrifaðir textar.

 Við setningu mótsins mun Björn Jónsson formaður TR kynna nýja skákbók, Lærðu að tefla, sem út kom í vikunni. Þetta er fyrsta frumsamda, íslenska kennslubókin í skák sem út hefur komið hérlendis í áraraðir og er afar kærkomin, því mjög mikill áhugi er meðal barna og ungmenna á skák.

 

Áhugasöm börn og ungmenni, sem vilja spreyta sig á einu glæsilegasta móti ársins ættu að skrá sig sem fyrst.

 

Skráning fer fram á vef TR www.taflfelag.is og Hróksins www.hrokurinn.is

 

—-

Nánari upplýsingar:

Björn Jónsson, formaður Taflfélags Reykjavíkur 899 9268

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, sími 695 0205