Skákþing Reykjavíkur var fyrst haldið árið 1932. Þá fór með sigur úr býtum hinn sexfaldi Íslandsmeistari Ásmundur Ásgeirsson. Síðan þá hafa margir af fremstu skákmönnum þjóðarinnar hampað Reykjavíkurmeistaratitlinum, enginn þó oftar en stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson; alls sjö sinnum. Á meðal annarra sigurvegara eru stórmeistararnir Friðrik Ólafsson (1960, 1963, 1975), Margeir Pétursson (1980), Helgi Ólafsson (1976, 1977), Hjörvar Steinn Grétarsson (2009, 2010), Stefán Kristjánsson (2002, 2006) og Jón L. Árnason (1981).
Skákþingi Reykjavíkur sem nýverið lauk í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur var hið 88. í röðinni. Íslenskir skákmenn fjölmenntu á þetta sögufræga skákmót en alls leiddu 63 skákmenn saman riddara sína. Þeirra stigahæstur var stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2560) en næstur honum í stigaröðinni var alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2424). FIDE-meistarinn Davíð Kjartansson (2403) var þriðji stigahæsti keppandinn en kollegar hans í FM-hópnum, Sigurbjörn Björnsson (2296) og Vignir Vatnar Stefánsson (2248) voru einnig mættir í slaginn. Sigurvegari mótsins í fyrra, Stefán Bergsson (2172), var einnig á meðal þátttakenda reiðubúinn að verja titilinn sem hann vann svo eftirminnilega. Þá lét stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova (2187) sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Ungir og efnilegir skákmenn létu að sér kveða eins og svo oft áður og sópuðu að sér bæði vinningum og stigum. Reynsluboltarnir létu ekki síður til sín taka og voru tveir þeirra í toppbaráttunni allt mótið. Spennan á toppnum var mikil allt fram í síðustu umferð. Margar snotrar skákir voru tefldar, fallegar fléttur sáust, sviptivindar léku um taflborðin sum hver og ótrúleg tafllok litu dagsins ljós.
SIGURVEGARINN
Lítið var um óvænt úrslit á meðal stigahæstu manna í fyrstu umferðunum. Um miðbik móts varð ljóst að sigurvegari 87.Skákþings Reykjavíkur, Stefán Bergsson, myndi ekki verja titilinn sem hann vann svo eftirminnilega og glæsilega árið áður. Stefán hóf þó keppni af krafti með tveimur skyldusigrum og loks jafntefli við stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson. Í 4.umferð varð Stefán hins vegar að láta í minni pokann fyrir Davíð Kjartanssyni og í kjölfarið fylgdu tvær yfirsetur. Stefán hafði því 3,5 vinning eftir 6 umferðir og þar með var ljóst að ævintýrið yrði ekki endurtekið. Jafnteflið við Stefán setti Hjörvar Stein ekki út af laginu því hann vann hvern andstæðinginn á fætur öðrum allt þar til hann mætti Guðmundi Kjartanssyni í næstsíðustu umferð. Guðmundur hafði fram að þessu einnig teflt vel og unnið allar tefldar skákir sínar ef undan er skilið jafntefli hans við Jóhann Ingvason í 4.umferð. Guðmundur var fyrir úrslitaskákina gegn Hjörvari hálfum vinningi á eftir Hjörvari, einkum vegna þess að Guðmundur varð að taka yfirsetu í fyrstu umferð mótsins vegna anna við taflborðin erlendis. Þetta forskot gat Hjörvar nýtt sér með því að tefla áhættulaust með hvítu gegn Guðmundi sem komst lítt áleiðis. Skákin endaði með jafntefli og Hjörvar var með pálmann í höndunum fyrir síðustu umferð. Þar stýrði Hjörvar svörtu mönnunum gegn titilhafabananum Þorvarði Fannari Ólafssyni. Það hefur reynst mörgum titilhafanum ærið verkefni að brjóta Þorvarð á bak aftur. Hjörvar stóðst prófraunina með því að vinna skákina og tryggði sér um leið titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2019. Þetta er í þriðja skipti sem Hjörvar stendur uppi sem sigurvegari í þessu móti.
VERÐLAUNAHAFAR
Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson lauk tafli með 7,5 vinning aðeins hálfum vinningi á eftir sigurvegaranum. Það dugði honum í 2.sætið heilum vinningi á undan næstu mönnum. Það reyndist Guðmundi dýrkeypt að þurfa að taka yfirsetu í fyrstu umferð. Yfirsetan var óumflýjanleg því þegar 1.umferð mótsins fór fram sat Guðmundur að tafli í Hastings á Englandi þar sem hann mátaði mann og annan. Guðmundur getur því gengið frá borði með höfuðið hátt, silfurverðlaun í farteskinu og 10 skákstigum ríkari.
Í 3.sæti með 6,5 vinning voru þrír skákmenn; Vignir Vatnar Stefánsson, Björgvin Víglundsson og Jóhann H. Ragnarsson. Vignir Vatnar hreppti að lokum 3.sætið eftir stigaútreikning. Vignir tapaði aðeins einni skák en sú var tefld í 6.umferð gegn sigurvegara mótsins. Björgvin lenti í 4.sæti og tapaði einnig aðeins einni skák, í 6.umferð gegn Sigurbirni Björnssyni. Björgvin tefldi vel allt mótið og var reiknuð frammistaða hans 2227 skákstig sem er 135 stigum hærra en skákstigin hans. Það nægði til þess að Björgvin hlaut frammistöðuverðlaun þeirra sem hafa yfir 2000 skákstig. Jóhann H. Ragnarsson varð að gera sér að góðu 5.sætið eftir stigaútreikninginn en það verður engu að síður að teljast afar góður árangur hjá Jóhanni, líklega einn sá besti um nokkurt skeið.
Í 6.-10.sæti voru jafnir með 6 vinninga þeir Sigurbjörn Björnsson, Davíð Kjartansson, Þorvarður Fannar Ólafsson, Daði Ómarsson og Gauti Páll Jónsson. Stigaútreikningur staðsetti Sigurbjörn í 6.sæti. Hann tefldi á pallinum allt mótið og var einn efstur eftir fjórar umferðir. Þá tapaði hann mjög slysalega fyrir Davíð. Sigurbjörn lagði þó ekki árar í bát heldur vann Björgvin í 5.umferð en mætti svo ofjarli sínum í Hjörvari í 6.umferð. Sigurbjörn mætti svo Guðmundi í lokaumferðinni þar sem hann varð að játa sig sigraðan í afar spennandi skák. Sigurbjörn tefldi því við næstum allan toppinn, enda var hann með hæst “tie-break” stig af öllum í mótinu.
Frammistöðuverðlaunin byggja á reiknaðri frammistöðu (Rp) miðað við eigin skákstig (Rtg):
- 2000+: Björgvin Víglundsson (Rp-Rtg = 135).
- 1600-1999: Héðinn Briem (Rp-Rtg = 130).
- 1200-1599: Benedikt Þórisson (Rp-Rtg = 274).
- 1000-1199: Ásthildur Helgadóttir (Rp-Rtg = 229).
- Stigalausir: Kristján Þ. Sverrisson (Rp = 1717).
STIGASTÖKKVARARNIR
Einn var sá keppandi sem hæst stökk upp stigalistann eftir mótið -Benedikt Þórisson. Hann fékk frammistöðuverðlaun í flokki 1200-1599 og var reiknuð frammistaða hans 274 stigum hærri en hans eigin stig, sem var það hæsta í mótinu. Benedikt vann tvo og gerði tvö jafntefli við sér mun stigahærri andstæðinga. Hans fræknasti sigur kom gegn hinum slynga skákmanni, Ólafi Gísla Jónssyni. Benedikt lauk tafli með 4 vinninga og 84 stiga hækkun.
Stephan Briem tefldi af fítonskrafti í mótinu og endaði með 5,5 vinning og 51 stiga hækkun. Hann vann Júlíus Friðjónsson og var nærri sigri gegn Daða Ómarssyni en Daði náði að lokum að halda jöfnu. Stephan var á meðal efstu manna lengi vel og tapaði aðeins einni skák, í 7.umferð gegn Guðmundi Kjartanssyni. Stephan tók tvær yfirsetur í fyrri hluta mótsins sem gerði honum erfitt um vik að berjast um verðlaunasæti. Það hefði verið spennandi að sjá hann tefla allar skákirnar því pilturinn var svo sannarlega líklegur til stórræðna. Sem hann sýndi nokkrum vikum síðar er hann tryggði sér Norðurlandameistaratitil í sínum aldursflokki.
Batel Goitom Haile tefldi afar vel í mótinu og fékk 4,5 vinning og 44 stiga hækkun. Hennar eftirtektarverðustu úrslit voru sigur á Jóhanni Arnari Finnssyni og jafntefli gegn bæði Óskari Long Einarssyni og Haraldi Baldurssyni.
ÓVÆNT TAFLLOK
Hún var margslungin lokastaðan í skák Guðmundar Kjartanssonar og Sigurbjörns Björnssonar í lokaumferðinni. Guðmundur lék 54.Df8+ og Sigurbjörn sá sæng sína uppreidda og gaf skákina. Lái honum það hver sem vill, en staðan virðist við fyrstu sýn gjörtöpuð. Reyndar virðist staðan líka gjörtöpuð við aðra og þriðju sýn. Það er ekki fyrr en við vélarsýn sem í ljós kemur að staðan er í raun hnífjöfn, ótrúlegt en satt! Það sem mannsaugað á erfitt með að greina –áður en vitað er að töfrar búi í stöðunni- er hið magnaða framhald: 54…Kh7 55.Bf5 Hg6! 56.Bxe4 og svartur er patt! Aðrir leikir duga skammt, líkt og Helgi Ólafsson benti á í Morgunblaðinu, t.d. 56.Df7+ Kh8 57.Dxg6 Dg2+! og aftur verður svartur patt. Þó þessi lokastaða sé með nokkrum ólíkindum þá er hún gott dæmi um þá margbreytilegu fegurð sem býr í heimi taflsins.
LOKAORÐ
Vel heppnuðu Skákþingi Reykjavíkur er lokið, enn eitt árið. Það er mikið gleðiefni fyrir íslenskt skáklíf að tekist hafi að halda þetta skákmót á hverju ári í 88 ár. Það tókst meira að segja á stríðsárunum! Það er merki um staðfestu sem er mikilvægt innihaldsefni í uppskrift að öflugu grasrótarstarfi. Það er líka merki um samstöðu þeirra sem komið hafa að skákstarfi á höfuðborgarsvæðinu í gegnum tíðina. Þó framkvæmd Skákþings Reykjavíkur hafi um langt árabil verið á borði Taflfélags Reykjavíkur þá er þetta sögufræga skákmót stærra og mikilvægara en svo að það snúist um eitt félag. Skákþing Reykjavíkur er mót allra íslenskra skákmanna líkt og keppendalistinn hefur oft endurspeglað. Mikilvægt er að samstaða ríki í íslensku skáksamfélagi um að styrkja burðarstoðir íslenskrar mótaflóru, líkt og Skákþing Reykjavíkur er. Það gerum við skákmenn með því að fjölmenna þegar slíkir viðburðir eru haldnir. Það gera taflfélög með því að hvetja sína félagsmenn til þátttöku. Stöndum vörð um söguna!
Öll úrslit mótsins og lokastaða er aðgengileg á Chess-Results. Sama gildir vitaskuld um skákir mótsins sem áhugasamir geta nálgast á sama stað. Skákstjórn var í öruggum höndum Ríkharðs Sveinssonar og Ólafs Ásgrímssonar. Stjórn Taflfélags Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra sem tóku þátt í að gera 88. Skákþing Reykjavíkur að eins vandaðri skákveislu og raunin varð.