Frakkinn viðkunnanlegi, Aasef Alasthtar, tefldi af öryggi og landaði sigri með fullu húsi á fjölmennu fyrsta Þriðjudagsmóti ársins 2023, síðastliðinn þriðjudag. Hann gaf hvergi færi á sér í fyrstu fjórum umferðunum en það gerði reyndar ekki Kristófer Orri Guðmundsson heldur og því tefldu þeir hreina úrslitaskák í síðustu umferð. Þar kom upp vandmetin og vandtefld staða og varla komnar hreinar línur enn, þegar tíminn var á þrotum hjá Kristófer Orra. Sá síðarnefndi náði þó 2. sætinu; efstur á stigum af fimm með 4 vinninga. Nokkuð var um óvænt úrslit og fyrir barðinu á því urðu að þessu sinni m.a. Grímur Daníelsson og sigursælasti skákmaður Þriðjudagsmótanna það sem af er vetri, Ólafur B. Thorsson.Verðlaun fyrir bestan árangur, miðað við frammistöðustig, féllu síðan Magnúsi Hjaltasyni í skaut, þrátt fyrir slysalegt tap fyrir ofannefndum Grími í síðustu umferð.
Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má nálgast hér á chess-results.
Næsta mót verður 10. janúar og hefst, eins og jafnan, stundvíslega klukkan 19:30, í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.