
Kristófer, Arnar, Helgi, Gauti, Theodór.
Meðan Helgi Áss Grétarsson var ennþá Íslandsmeistari freistaði hann þess að næla sér í einn eftirsóknarverðan og skemmtilegan mótssigur – að vinna Meistaramót Truxva! Það tókst þann 2. júní síðastliðinn. Seint koma sumar fréttir en koma þó!
Mótið var nautsterkt og vel sótt að vanda. 36 skráðir, takk fyrir. Fyrirfram mátti áætla að Helgi Áss og Arnar E. Gunnarsson yrðu líklegir til afreka, en Arnar er einn okkar farsælasti mótaskákmaður. Mótið hófst á því að upphafsmaður mótsins hélt annað árið í röð óleynilega kosningu um umferðafjöldann, 11 eða 13 umferðir. Nær allir fullorðnir þátttakendur kusu gegn umferðunum 13 og vildu tefla 11 skákir. Hins vegar kusu mótsstjórinn Gauti Páll, Arnar Milutin Heiðarsson, Kristján Örn Elíasson og öll börnin (sem voru þónokkur) með umferðunum 13. Stundum má nefnilega hafa svolítið gaman að þessu!
Meðan foreldrarnir nöguðu neglurnar yfir því að missa af tíufréttum voru klukkurnar settar í gang og 13 umferðir tefldar trekk í trekk undir dyggri skákstjórn Kristófers Orra Guðmundssonar, nýs stjórnarmanns TR. Áðurnefndur Helgi nældi sér í 11 vinninga sem dugði til sigurs í mótinu. Arnar, sem unnið hefur mótið þrisvar, varð að sætta sig við annað sætið að þessu sinni með 10 vinninga. Hraðskákgutlarinn og wannabe titilhafinn Gauti Páll Jónsson átti góða spretti og skellti sér í þriðja sætið með 9.5 vinning.
Ekki má gleyma hvað TRUXVI stendur fyrir (það gerist reyndar árlega), nefnilega TR u XVI. Semsagt, félagsmenn TR á grunnskólaaldri, yngri en 16 ára. Efsti TRUXVINN í mótinu varð Theodór Eiríksson sem lætur sig sjaldan vanta ásamt föður sínum á þriðjudagsmót Taflfélagsins. Skákstjóri mótsins og einn umsjónarmanna þriðjudagsmótanna í sumar varð svo efstur skákmanna undir 2000 stigum, Kristófer Orri.
Nú þegar sjöunda Truxvamótið er haldið er ótrúlegt að líta yfir farinn veg. Hugmynd okkar Björns Jónssonar var að útbúa sterkt og skemmtilegt mót fyrir okkur krakkana (ég var sjáið til sjálfur TRUXVI þegar mótið hóf göngu sína) gegn sterkri mótsstöðu, þjónaði göfugum tilgangi þá. En nú er staðan þannig að mótahald hefur aukist þvílíkt, að sterk skákmót með styttri tímamörkum eru rúmlega annan hvern dag, ef allt er tekið með. Eitthvað fór ég að velta fyrir mér hvort að það mætti fara að segja þetta gott, þar sem mót eru á hverju horni, og hafa þetta síðasta Meistaramót Truxva.
En þá lenti bara kallinn í þriðja sæti, græddi 42 hraðskákstig og flaug yfir 2200 sagði “djöfull er gaman að þessu” sautján sinnum og ákvað að Meistaramót Truxva er ekki að fara neitt. Sjáumst að ári!
Lokastaðan á Chess-results.