Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur fer fram 3. apríl.
Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur, sem jafnframt er Stúlknameistaramót Reykjavíkur, fer fram sunnudaginn 3. apríl í skákhöll T.R. að Faxafeni 12. Taflið hefst kl.13 og stendur til kl.17 c.a. Tefldar verða 7 umferðir eftir svissnesku kerfi með umhugsunartímanum 10 mínútur á skák, auk þess sem 5 sekúndur bætast við eftir hvern leik (10m+5s). Þátttaka er ókeypis. Mótið verður reiknað til alþjóðlegra atskákstiga.
Mótið er opið öllum börnum og unglingum, óháð taflfélagi eða búsetu, sem eru fædd árið 2006 eða síðar. Teflt verður í tveimur flokkum: opnum flokki og stúlknaflokki.
Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í opna flokknum sem og í stúlknaflokknum. Til viðbótar verða veitt verðlaun fyrir efsta sætið í öllum árgöngum í báðum flokkum (opna flokknum og stúlknaflokknum), elsti árgangurinn er 2006 og yngsti árgangurinn er 2016 og yngri. Ef þátttakendur í stúlknaflokki eru færri en 7 munu allir þátttakendur tefla saman í opnum flokki.
Nafnbótina Unglingameistari Reykjavíkur 2022 hlýtur sá keppandi sem verður hlutskarpastur þeirra sem hafa lögheimili í Reykjavík eða eru meðlimir í reykvísku taflfélagi. Nafnbótina Stúlknameistari Reykjavíkur 2022 hlýtur sú stúlka sem verður hlutskörpust þeirra stúlkna sem hafa lögheimili í Reykjavík eða eru meðlimir í reykvísku taflfélagi.
Núverandi Reykjavíkurmeistarar eru Kristján Dagur Jónsson og Iðunn Helgadóttir. Nánari upplýsingar um mótið í fyrra má finna hér. Skákstjórar verða Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir og Torfi Leósson. Mælt er með að keppendur taki með sér nesti þar sem mótið tekur tæpa fjóra klukkutíma.