Barna- og unglingameistaramót sem og Stúlknameistaramót Taflfélags Reykjavíkur fór fram í dag, sunnudaginn 5. nóvember, í félagsheimili T.R. Faxafeni 12. Keppt var í tveimur flokkum, opnum flokki og stúlknaflokki og voru 7 umferðir tefldar með umhugsunartímanum 10 + 5 (10 mín. og 5 sekúndur fyrir hvern leik).
Skákmótið var opið fyrir keppendur 15 ára og yngri og voru þátttakendurnir 24, 16 í opnum flokki og 8 í stúlknaflokki. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í báðum flokkum. Félagsmenn í TR kepptu einnig um titilinn Unglingameistari T.R. 2017 og Stúlknameistari T.R 2017. Að auki voru aldursflokkaverðlaun í báðum flokkum.
Þátttakendur voru flestir úr hinum ýmsu skákæfingahópum TR, en einnig voru þátttakendur úr öðrum skákfélögum af höfuðborgarsvæðinu. Að þessu sinni voru þó engir keppendur úr elsta aldursflokknum, 13 til 15 ára, sem annars hefur oft verið vel skipaður í opna flokknum.
Skákmótið fór fram á meðan stormur og úrhelli geisaði úti fyrir, sem bara átti eftir að versna með kvöldinu. Það truflaði þó ekki keppendur mikið, því inni var hlýtt, þótt vindur gnauðaði á gluggum.
Skákmótið hófst með korters seinkun, en tímaáætlun hélst vel og var mótið búið um kl. 16.30. Eftir fjórðu umferð var gert vinsælt og vel þegið hlé, en þá bauð T.R. keppendum upp á pizzur og gos. Allir fóru vel mettir í þrjár síðustu umferðirnar. Strax eftir mótslok var svo verðlaunaafhending.
Sigurvegari opna flokksins varð Tómas Möller með 5,5 vinning af 7 mögulegum. Hann fór taplaus í gegnum mótið! Í öðru sæti varð Sharifa Rayan með 5 vinninga. Í þriðja sæti, einnig með 5 vinninga, en lægri á stigum varð svo TR-ingurinn Kristján Dagur Jónsson, sem þar með hlaut bronsið og varð jafnframt Unglingameistari T.R. 2017.
Í stúlknaflokknum öttu 8 stúlkur kapp, þar af 6 úr TR, ein úr Fjölni og ein úr Víkingaklúbbnum. Batel Goitom Haile, stúlknameistari TR frá því í fyrra varði titilinn sinn með því að vinna allar sínar skákir! Hún er því Stúlknameistari TR 2017.
Í 2. sæti varð Soffía Arndís Berndsen, sem fékk 6 vinninga og tapaði einungis fyrir Batel. Í 3. sæti varð Ásthildur Helgadóttir með 5 vinninga.
Önnur úrslit hér að neðan, en geta má þess að Iðunn Helgadóttir þurfti að hætta eftir 4 umferðir.
Einkennandi fyrir þetta mót var áhugi og einbeiting þátttakenda. Margir snilldar taktar litu dagsins ljós í skákunum: varnarsigrar og blokkeringar sem gáfu jafntefli, fráskákir og gafflar, skyndileg mát og sömuleiðis vel útfærðar sóknir. Allt þetta var unun á að horfa!
Það var ekki mikið um álitamál sem þurfti að leysa, þannig að við Torfi skákstjóri áttum frekar þægilegan dag hvað það varðar. Allir þáttakendurnir stóðu sig með sóma!
Í opna unglingamótinu fengu þessir aldursflokkaverðlaun:
11-12 ára: Kristján Dagur Jónsson
9-10 ára: Tómas Möller
8 ára og yngri: Egill Breki Pálsson
Í stúlknamótinu hlutu eftirfarandi stúlkur aldursflokkaverðlaun:
11-12 ára: Ásthildur Helgadóttir
9-10 ára: Batel Goitom Haile.
8 ára og yngri: Wihbet Goitom Haile (yngri systir Batel).
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum í mótinu fyrir skemmtilegt skákmót og óskar sigurvegurunum innilega til hamingju með árangurinn!
Skákstjórar voru Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
Pistill og myndir: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
Heildarúrslit mótsins: Opinn flokkur – Stúlknaflokkur