Björgvin og Ingvar efstir á Öðlingamótinu – lokaumferð fer fram á föstudagskvöld20170329_205617

Það stefnir í æsispennandi lokaumferð í Skákmóti öðlinga en sjötta og næstsíðasta umferð fór fram í gærkveld. Það var hart barist og þrátt fyrir að helming tefldra skáka hafi lokið með jafntefli voru það síður en svo baráttulausar viðureignir. Ein af orrustunum sem lauk með skiptum hlut var bardagi Björgvins Víglundssonar (2185) og Þorvarðs F. Ólafssonar (2188) á efsta borði eftir mikla baráttu þar sem Þorvaður var orðinn knappur á tíma og staðan virtist frekar vera Björgvini í hag. Á sama tíma lagði Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson (2377) Óskar Long Einarsson (1671) eftir mikinn svíðing í endatafli hvar hinn fyrrnefndi hafði yfir gríðarlega öflugu biskupapari að ráða gegn biskupi og riddara þess síðarnefnda. Peðsvinningur og útilokun hins hvíta riddara tryggði Ingvari sigur eftir laglega úrvinnslu.

20170329_205545

Björgvin og Ingvar eru því efstir og jafnir með 5 vinninga og ljóst að úrslit ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni sem fer fram næstkomandi föstudagskvöld. Þorvarður er í 3.-4. sæti með 4,5 vinning ásamt Siguringa Sigurjónssyni (2021) sem lagði Gunnar K. Gunnarsson (2115) í fjörugri skák. Þrír keppendur koma næstir með 4 vinninga. Björgvin er enn efstur skákmanna 50 ára og eldri og stefnir allt í að hann tryggi sér Íslandsmeistaratitil þess aldurshóps. Í þeim hópi er Þór Valtýsson (1962) sá eini sem getur náð Björgvini að vinningum en þeir mætast einmitt í lokaumferðinni.

Rétt er að ítreka að lokaumferðin fer fram næstkomandi föstudagskvöld og hefst kl. 19.30. Búast má við rafmögnuðu andrúmslofti í Skákhöllinni enda sjálfur Öðlingameistaratitillinn í húfi ásamt Íslandsmeistaratitli 50 ára og eldri. Á efstu borðum mætast Siguringi og Ingvar, Þorvarður og Óskar, sem og Þór og Björgvin eins og áður kom fram.